Logi leiðtogi félagshyggjuafla
Eftir kosningar lætur Logi Már eins og hann sé talsmaður stærri hóps en eigin smáflokks og hafi stöðu til að leiða „félagshyggjufólk“ til samstöðu.
Lét Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, eins og flokkur hans væri andstæður póll við Sjálfstæðisflokkinn og hann hefði eitthvert umboð til að tala fyrir hönd annarra flokka gegn samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.
Samfylkingin tapaði 2,2% atkvæða í kosningunum og hlaut 9,9%, tapaði auk þess 1 þingmanni og hefur nú sex eins og Flokkur fólksins og Viðreisn, aðeins einn flokkur er minni, Miðflokkurinn með 3 þingmenn, hinn tapflokkur kosninganna við hlið Samfylkingarinnar.
Eftir kosningar lætur Logi Már eins og hann sé talsmaður stærri hóps en eigin smáflokks og hafi stöðu til að leiða „félagshyggjufólk“ til samstöðu. Í samtali við Morgunblaðið 27. september sagði Logi Már:.
„Mér finnst brýnasta verkefnið að fólk sem aðhyllist félagshyggju, jöfnuð og réttlæti, samstilli krafta sína. Það er flóknara þegar Vinstri græn, okkar pólitísku nágrannar, hafa verið hinum megin við línuna.“
Í þessum orðum formanns Samfylkingarinnar felst viðurkenning á að tilraunin með flokk hans sem hófst árið 2000 hefur misheppnast. Þá átti að sameina „félagshyggjuflokkana“ í einum flokki en hópur innan Alþýðubandandalagsins sætti sig ekki við það og stofnaði Vinstri græna (VG). Þessi hópur hefur nú vaxið Samfylkingunni yfir höfuð.
Meini Logi Már eitthvað með því sem hann segir ætti hann að fara yfir línuna og inn í VG. Það gerir hann ekki heldur hallar sé frekar að Pírötum (6 þingmenn) og tekur undir með þeim, að vilja ekki sjá Sjálfstæðisflokkinn og láta eins og „nýja stjórnarskráin“ sé eitthvað annað en í besta falli listrænn gjörningur.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar (mynd mbl.is/Eggert).
Samhliða því sem Logi Már agnúast út í Sjálfstæðisflokk og VG leiðir 101-Samfylkingin misheppnaða meirihlutastjórn í Reykjavík: Fulltrúa þessa arms flokksins á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, Kristrúnu Mjöll Frostadóttur, var hampað mjög í kosningabaráttunni og að henni lokinni er látið eins og henni verði fljótlega falið að taka við forystu flokksins af Loga Má. Það er engin félagshyggja að þvælast fyrir verðandi formanni 101-Samfylkingarinnar.
Vandræði Kristrúnar Mjallar í kosningabaráttunni snerust um þögn hennar þegar Morgunblaðið og Viðskiptablaðið vildu fræðast um hagnað hennar af hlutabréfaeign í Kviku. Sakaði hún blöðin um ofsóknir í sinn garð og sagði meðal annars á Facebook-síðu sinni 20. september:
„Jafnaðarmenn eru ekki á móti markaðnum, við viljum ekki leggja niður hlutabréfafjárfestingar eða koma í veg fyrir verðbréfafjárfestingar. Þetta er einmitt ein af ástæðunum fyrir því að ég fór í pólitík því ég var þreytt á því að hægri menn eigni sér atvinnu- og viðskiptalífið. Það er fáránleg afstaða.“
Kristrún Mjöll boðar stefnu eins og Samfylkingin fylgdi árið 2003, þegar flokkurinn var í liði með Baugsmönnum og Gunnari Smára til að drepa Sjálfstæðisflokkinn í eitt skipti fyrir öll. Verður hún næsti formaður félagshyggjuflokks? Hvað segir Logi Már um það?