5.10.2021 9:50

Logi í kröppum sjó

Innan Samfylkingarinnar vilja einhverjir enn að Kristrún felli Loga. Hann hallar sér fastar að Pírötum og kallar á bjarghring frá „pólitískum nágrönnum“.

Logi Einarsson. formaður Samfylkingarinnar, telur að „himinn og haf“ skilji á milli stjórnarflokkanna í viðræðum formanna þeirra. Fleiri stjórnarmynstur séu í stöðunni en samstarf ríkisstjórnarflokkanna þriggja. Píratar vilji til dæmis styðja minnihlutastjórn Framsóknarflokks Vinstri-grænna og Samfylkingar. Logi telur „vel mögulegt að styrkja þessa hugmynd enn frekar með aðkomu fleiri flokka“. Vísar hann þar væntanlega til Flokks fólksins eða jafnvel Viðreisnar.

Í þessari færslu skipar Logi sér enn við hlið Pírata eins og hann gerði fyrir kosningar þegar hann eins og þeir útilokaði stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. Áður rauf hann með Pírötum viðræður forystumanna stjórnmálaflokkanna undir forystu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um stjórnarskrármál.

Allt leiddi þetta til fylgistaps Samfylkingarinnar í kosningunum 25. september. Nú kallar Logi VG og Framsóknarflokkinn „pólitíska nágranna“ sína sem hafi „keyrt“ kosningabaráttu sína á „mjög áþekkum málum og við í Samfylkingunni“ þeir ættu því „að íhuga það alvarlega í hvers konar ríkisstjórn þeir eru líklegastir að ná árangri með þau mál sem þau segjast brenna fyrir“. Þeir „nái fram fleirum af sínum hjartans málum í öðru samstarfi en nú er á teikniborðinu“.

_ShZCw2w_400x400Í þessari færslu formanns Samfylkingarinnar gætir þess grundvallarmisskilnings að nú fari fram „ríkisstjórnarmyndunarviðræður“ eins og hann orðar það.

Þegar þannig var talað við Katrínu Jakobsdóttur í Kastljósi sjónvarpsins mánudaginn 4. október minnti hún fréttamanninn á að ekki færu fram neinar stjórnarmyndunarviðræður. Sama ríkisstjórn sæti áfram og fyrir kosningar. Allir stjórnarflokkarnir hefðu lagt mál á þann veg fyrir kjósendur að þeir væru ekki afhuga að starfa áfram saman í ríkisstjórn enda nytu þeir til þess stuðning í kosningunum. Flokkarnir og stjórnin hefði fengið þennan stuðning og nú væri rætt um stjórnarstefnu næstu fjögurra ára og hvernig orða ætti hana í samstarfssáttmála.

Þetta er staðan að kosningum loknum og stjórnarandstaðan á um sárt að binda, sérstaklega Píratar og Samfylking. „Nýja stjórnarskráin“ var tákræna skjalið um samstöðu þeirra. Sama skjal notuðu forystumenn flokkanna fyrir fáeinum mánuðum til að segja skilið við stjórnarskrárviðræður við Katrínu Jakobsdóttur og rjúfa samstöðuna sem hún vildi móta. Það var nú nágrannakærleikurinn sem Logi sýndi þá.

Innan Samfylkingarinnar togast á ólíkir kraftar. Fyrir kosningar var deilt um hvort hampa ætti Kristrúnu Frostadóttur, frambjóðanda í Reykjavík, eins og gert var. Hún á nú flokkslega í vök að verjast. Prinsessuviðtali Egils Helgasonar við hana sunnudaginn 3. október í Silfri ríkissjónvarpsins var ætlað skýra tug milljóna hagnað hennar af hlutabréfaviðskiptum fyrir samfylkingarfólki. Innan Samfylkingarinnar vilja einhverjir enn að Kristrún felli Loga. Hann hallar sér fastar að Pírötum og kallar á bjarghring frá „pólitískum nágrönnum“.