Lögbrot Kristrúnar
Nú er komið í ljós að Kristrún braut þingskapalögin með ræðu sinni. Lögum samkvæmt er ræðunni dreift tveimur sólarhringum fyrir flutning hennar. Eiga þingmenn að geta treyst því að henni sé ekki breytt í flutningi nema þeim sé gert viðvart um það.
Mikil fagnaðar- og hrifningarbylgja fór um Facebook frá samfylkingarfólki að kvöldi mánudagsins 10. febrúar þegar Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra flutti fyrstu stefnuræðu sína. Bylgjan reis þó hæst eftir að Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, loftslags- og orkumálaráðherra, hafði farið mikinn í ræðustól þingsins og meðal annars öskrað að víst skyldi öryggi Reykjavíkurflugvallar tryggt og tré felld.
„Afbragðs ræða hjá Kristrúnu og fallegt hvernig hún vék að stöllum sínum, leiðtogum hinna flokkanna,“ sagði Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og fyrrv. alþingismaður, og klykkti út með þessum orðum: „En ræða kvöldsins var náttúrlega hjá Jóhanni Páli.“
Nú er komið í ljós að Kristrún braut þingskapalögin með ræðu sinni. Lögum samkvæmt er ræðunni dreift tveimur sólarhringum fyrir flutning hennar. Eiga þingmenn að geta treyst því að henni sé ekki breytt í flutningi nema þeim sé gert viðvart um það.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra flytur stefnuræðu sína 10. febrúar 2025 (mynd: .mbl.is/Eyþór).
Í umræðunum sagði Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins: „Í umfjöllun um menntamál var ekki orði vikið í útsendri stefnuræðu að stöðu kennara eða þeirri grafalvarlegu stöðu að þúsundir barna hafi setið heima og að óbreyttu stefni í allsherjarverkfall. “ Hann vísar þarna til ræðunnar sem þingmenn fengu senda sem stefnuræðu.
Jóhann Páll talaði næstur á eftir Sigurði Inga í umræðunum og sagði að hann hefði bitið „höfuðið af skömminni með því að ljúga því blákalt hérna að þingheimi að hæstv. forsætisráðherra hefði ekki ávarpað kennara í ræðu sinni, hefði ekki vikið að menntamálum eða ávarpað kennara þarna úti, sem hún gerði svo sannarlega“.
Allir sáu og heyrðu að Jóhann Páll fór með rangt mál með vísan í ræðu Sigurðar Inga fyrir utan að hann braut reglur um hvernig ávarpa skuli þingmenn í þingsal þegar hann beindi óvildarorðunum til Sigurðar Inga. Hann margféll á mælskuprófinu miðað við þingskapalögin.
Í þeim lögum eru reglur sem virtar hafa verið við flutning stefnuræðu til þessa. Þegar vakið er máls á þessu lögbroti felst í því áminning um að hætti menn að hafa reglur í heiðri, leiði það til vandræða. Menn geta skrifað innblásnar og hrífandi ritgerðir en falla á prófinu vegna þess að þeir kunna ekki réttritun. Fylgni við kröfur af því tagi er að vísu á undanhaldi. Þingskapalögin eru þó enn í gildi.
Að forsætisráðherra flytji aðra ræðu en send var þingmönnum er einfaldlega lögbrot, þingsköp alþingis eru lög. Þórunn Sveinbjarnardóttir sem sat á forsetastóli þingsins hefði átt að áminna Kristrúnu með orðunum: „Þetta er vítavert!“
Virðingarleysi fyrir fundarsköpum á alþingi er ávísun á glundroða í störfum þingsins. Fyrsta skrefið kann að vera lítið en það er og verður fordæmi. Forysta Samfylkingarinnar á þingi og í ríkisstjórn missteig sig illilega í stefnuumræðunum. Að kenna það við reynsluleysi er haldlítið. Margir hafa áður flutt sína fyrstu stefnuræðu án þess að falla svona á prófinu.