Loftslagsvörn með vikri
Allt staðfestir þetta hve miklu skiptir að nýta jarðveg og það sem hann hefur að geyma til að binda kolefni og beita til þess markaðslausnum.
Í Morgunblaðinu laugardaginn 14. ágúst birtist frétt um væntanlegt vikurnám við Hafursey í landi Hjörleifshöfða á Mýrdalssandi á vegum þýska fyrirtækisins STEAG Power Minerals. Ætlunin er í fyrstu að flytja út 200.000 tonn af Kötluvikri á ári en síðar milljón tonn árlega. Vikurmagnið er svo mikið að vinnslan á 15,5 ferkílómetra svæði getur staðið í meira en eina öld. Til flutninga á vikrinum verða notaðir 30 stórir vörubílar í stöðugum flutningum rúmlega 160 km leið til Þorlákshafnar um Vík, Hvolsvöll, Hellu og Selfoss. Hver ferð þessa vegalengd tekur rúma tvo klukkutíma. Er vikurmagnið sagt duga í 115 til 250 skipsfarma eftir stærð flutningaskipa. Um 1.500 metra löng færibönd verða notuð til að flytja vikurinn úr námunni að athafnasvæði þungaflutningabílanna og geta þau afkastað 150-200 tonnum á klukkustund. Sagt er að 135 störf verði til í Mýrdalshreppi og Þorlákshöfn, af þessum störfum tengjast 105 akstri og flutningum.
Þessi skýringarmynd birtist í Morgunblaðinu 14. ágúst 2021.
Þýska fyrirtækið sérhæfir sig í að gera sementsframleiðslu umhverfisvænni í samræmi við umsamin loftslagsmarkmið. Vegna þeirra markmiða verður kolavinnslu hætt í Þýskalandi árið 2038 og þar með hverfur flugaska frá kolaverum. Hún er notuð í sement í stað megnandi sementsgjalls. Kötluvikur er sagður hafa nánast sömu tæknilegu eiginleika og flugaska og uppfylla allar kröfur staðla sem íaukaefni í sement. Mulinn vikur af Mýrdalssandi er auk þess svipaður flugösku að lit og verður steypan áfram fallega grá með honum. Ekki þarf að vinna vikurinn neitt, hann er svo hreinn að hægt er að senda hann óunninn til viðskiptavina. Þar er hann mulinn og blandað í sement, segir í frétt Morgunblaðsins. Verðþróun á losunarheimildum, það er kolefniseiningum, í Evrópu geri vikursementið samkeppnishæft við annað hefðbundnara og óumhverfisvænt sement.
Allt staðfestir þetta hve miklu skiptir að nýta jarðveg og það sem hann hefur að geyma til að binda kolefni og beita til þess markaðslausnum. Rannsóknir á Kötluvikri hafa leitt til þessarar niðurstöðu og fyrir hendi er markaður til að verðleggja vottaðar kolefniseiningar og þar með leggja grunn að hagkvæmum, umhverfisvænum viðskiptum.
Á öllu eru þó tvær hliðar. Friðrik Erlingsson, rithöfundur búsettur á Hvolsvelli segir á Facebook laugardaginn 14. ágúst:
„Það eru svona þversagnir sem gera það að verkum að mann setur hljóðan um stund. Hér segir að vikurinn verði fluttur út og blandaður í steypu í stað annars efnis sem losar mun meiri mengun. Besta mál. En hér segir einnig að 30 STÓRIR VÖRUBÍLAR VERÐI Í STÖÐUGUM FLUTNINGUM frá Hafursey til Þorlákshafnar. Ganga þeir fyrir appelsínusafa, eða hvað? Eiga þeir að aka þjóðveg nr.1? Til viðbótar við alla aðra umferð á Suðurlandsvegi? Hvers vegna er ekki hægt að dæla vikrinum í gámaskip úti fyrir ströndinni? Aldrei þessu vant er ég ofboðslega spenntur að lesa umhverfismatið á þessu dæmi.“
Kannski tekst að raf- eða vetnisvæða þungaflutningabíla. Þeir sem aka reglulega um Suðurlandsveg vita hins vegar að þungaflutningar af þessu tagi eiga ekki heima þar. Frá Vík til Landeyjahafnar eru til dæmis 73 km megi ekki dæla beint í skip við Vík.