Losunarmarkmið í lausu lofti
Nú upplýsir loftslagsráðherrann að þingmenn og embættismenn ásamt hópi vísindalegra ráðgjafa hafi vaðið áfram í villu og svima.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Jóhann Páll Jóhannsson, segir áralangan misskilning íslenskra stjórnvalda um eigin losunarmarkmið gagnvart Parísarsamningnum fela í sér „stórkostlegan áfellisdóm“ yfir loftslagsstjórnsýslu landsins. Ríkisendurskoðun ætlar að gera stjórnsýsluúttekt á loftslagsmálum, með áherslu á skipulag, upplýsingagjöf, árangur og fjármögnun á árunum 2018–2025. Ætlunin er að skýrslan komi út næsta vor.
Frá þessu er skýrt á Vísi í dag (15. nóv.) í viðtali við Jóhann Pál Jóhannsson.
Ljóst varð árið 2024, að því er virðist öllum að óvörum, að íslensk stjórnvöld hefðu árum saman vísað til sameiginlegs losunarmarkmiðs Evrópusambandsins í stað þess að setja sér eigið sjálfstætt markmið samkvæmt Parísarsamningnum.
Að sögn ráðherra greindi svonefndur spretthópur, sem skoðaði málið á hans vegum í skyndi, að íslensk stjórnvöld hefðu frá upphafi misskilið eðli samstarfsins við ESB um Parísarsamninginn. Samstarfið snúist í raun um upptöku og notkun evrópskra loftslagskerfa, þar á meðal regluverks um samfélagslega losun, stóriðju og landnotkun, en það feli ekki í sér að Ísland geti látið ESB-markmið gilda sem sín eigin framlög til samningsins.
Loftslagsráðtefna SÞ er nú í Brasilíu og loftslagsráðherra Íslands segir að íslensk stjórnvöld hafi árum saman haft rangt fyrir sér um losunarmarkmið til að bæta loftslagið.
Í þessu sambandi má minna á að 12. júní sl. minnti loftslagsráð, sem er stjórnvöldum til ráðuneytis, á að enn hefðu ekki orðið þau þáttaskil í framkvæmd loftlagsaðgerða hér sem ráðið hefði kallað eftir í aðdraganda þingkosninga í nóvember 2024. Segir ráðið að innlend stjórnsýsla loftslagsmála sé enn of sundurlaus sem birtist einkum í veikri verkstjórn og eftirfylgni, ómarkvissri ráðstöfun fjármuna, skorti á upplýsingamiðlun og takmörkuðu samráði við almenning.
Loftslagsráðherrann víkur ekkert að þessum ábendingum í viðtalinu við Vísi en segir skiljanlegt að almenningur spyrji hvernig þessi mistök varðandi loftslagsmarkmið Íslands hafi getað gengið óátalin í mörg ár.
Árið 2018 hófu íslensk og norsk stjórnvöld viðræður við ESB um að taka þátt í samstarfi um að ná markmiðum Parísarsamningsins um loftslagsmál frá árinu 2015. Krafðist ESB þess að slíkt samstarf yrði reist á EES-samningnum með sömu skuldbindingum og giltu um aðildarríki sambandsins. Féllust norsk og íslensk stjórnvöld á það. ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, fylgist nú með því að íslenska ríkið standi við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum í samræmi við Parísarsamninginn frá 2015.
Þegar um þetta var samið og gengið frá því sumarið 2019 logaði allt í deilum á alþingi um þriðja orkupakkann. Deilurnar hér mátti rekja til krafna frá andstæðingum EES-samningsins í Noregi. Nokkrum vikum eftir að þeim lauk og Miðflokkurinn hætti málþófi sínu um orkupakkann sigldi ákvörðunin um að tengja loftslagsmál EES-samningnum umræðulítið og í sátt í gegnum þingið.
Nú upplýsir loftslagsráðherrann að þingmenn og embættismenn ásamt hópi vísindalegra ráðgjafa hafi vaðið áfram í villu og svima.
Sigríður Á. Andersen, nú þingmaður Miðflokksins, var formaður utanríkismálanefndar alþingis við afgreiðslu þessa nýja þáttar loftslagsmálanna árið 2019. Er hún á þeirri skoðun að þingmenn hafi misskilið þetta mikla mál?