10.5.2022 10:48

Lofa stærri og dýrari Strætó

Borgarlína er Strætó í þriðja eða fjórða veldi. Góður fjárhagur Strætó eða hagkvæmni í rekstri fyrirtækisins ber aldrei á góma þegar borgarlína er nefnd.

Til að draga athygli frá kosningunum til borgarstjórnar Reykjavíkur gripu þingmenn Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar til þess ráðs eftir páska að setja allt á annan endann vegna sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Þeim tókst að þyrla upp miklu pólitísku moldviðri.

Í stað þess að fjölmiðlamenn tækju hlut sinn alvarlega og færu í saumana á fullyrðingaflaumnum birtu þeir meira að segja það sem gat augljóslega ekki staðist við fyrstu sín sem frétt við hliðina á öðru sem hafði þó verið sannreynt. Þetta gagnrýnislausa fréttaflæði frá samfélagsmiðlum inn í miðla sem ætla mætti að beittu viðurkenndum aðferðum blaðamennsku setur því miður æ meiri svip á alla íslenska fjölmiðla.

Forystumenn Blaðamannafélags Íslands tala aldrei um að skerpa faglegar kröfur. Þeir leggja þeim hins vegar lið sem telja að sérreglur eigi að gilda um fjölmiðlamenn við rannsókn sakamála. Leitað er allra leiða til losa blaðamenn undan því að svara spurningum lögreglunnar í Norðurlandi eystra við rannsókn vegna gagnaþjófnaðar úr stolnum farsíma. Þar kemur sjálft ríkisútvarpið við sögu. Þegar fjölmiðlakóngurinn Rupert Murdoch lenti í krísu vegna misnotkunar blaðamanna á upplýsingum úr farsímum lokaði hann einfaldlega helstu tekjulind sinni í Bretlandi og hætti útgáfu á The News of the World.

1233126Mbl.is

Þingmennirnir sem helst hneyksluðust á meðferð á opinberu fé vegna bankasölunnar eru fulltrúar flokkanna sem hæst hrópa á borgarlínu í Reykjavík. Enginn veit hvað hún mun kosta eða hvernig eigi að standa undir rekstrinum.

Borgarlína er Strætó í þriðja eða fjórða veldi. Góður fjárhagur Strætó eða hagkvæmni í rekstri fyrirtækisins ber aldrei á góma þegar borgarlína er nefnd. Í sjálfu sér er það skiljanlegt því að Strætó er gjaldþrota og enginn hefur nokkur svör við hvernig brugðist skuli við nýjum upplýsingum í miðri kosningabaráttunni um að tapið á Strætó verði ekki 243 m.kr. í ár heldur 994 m.kr. Frá því í haust hefur áætlaður rekstrarkostnaður Strætó í ár hækkað um meira en 600 m.kr.

Í Reykjavík leiða Samfylking og Píratar herförina gegn fjölskyldubílnum. Engin útgjöld eru of há í því stríði. Þetta er jú barátta fyrir bættum almannahag og hreinu lofti.

Svo virðist sem kjósendur hópist að þessum flokkum annars vegar til að láta þá svipta sig einkabílnum og hins vegar til að leyfa þeim að fara æ dýpra ofan í vasa sína fyrir botnlausa hít Strætó.

Helsta kosningaloforð Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar er að Strætó verði stærri og dýrari. Þeir nefna þó engar tölur. Þeir segja ekki heldur hvernig þeir ætla að leysa fjárhagsvandann sem blasir við Strætó núna. Þeir segja ekkert um þetta af því að þeir þora það einfaldlega ekki. Ætla kjósendur að láta þar við sitja? Borga bíllausir meira til borgarlínu með bros á vör?

Það er enginn rannsóknarblaðamaður sem brýtur þennan fyrirsjáanlega fjáraustur til mergjar. Þarna flýtur allt áfram án þess að stigið sé niður fæti. Þetta er þó mun dýrkeyptara mál fyrir landsmenn en salan á Íslandsbanka sem skilaði hundruðum milljarða í ríkissjóð.

Um þetta er kosið laugardaginn 14. maí.