Ljósleiðari í Fljótshlíð
Þessa daga eru heimtaugar plægðar til notenda í Fljótshlíð og í veðurblíðunni í gær (19. júlí) var heimtaugin plægð hingað að Kvoslæk.
Unnið er að öðrum áfanga ljósleiðarakerfisins Í Rangárþingi eystra og er áformað að ljúka við lagningu ljósleiðara til notenda í Austur- og Vestur Landeyjum, Fljótshlíð og til notenda í dreifbýli kringum Hvolsvöll. Í frétt sveitarstjórnar segir að samtals hafi 214 notendur óskað eftir að fá tengdan til sín ljósleiðara, þar af eru um 65% umsókna frá lögheimilum eða notendum með atvinnustarfsemi en um 35% frá notendum í sumarhúsum.
Þessa daga eru heimtaugar plægðar til notenda í Fljótshlíð og í veðurblíðunni í gær (19. júlí) var heimtaugin plægð hingað að Kvoslæk. Skarphéðinn Jóhannesson verktaki og hans menn stóðu mjög fagmannlega að verki sem tók skamman tíma og umrótið var lítið.
Hér birti ég myndir því til staðfestingar. Plógurinn dregur rörið, borað er gat á húsvegginn og enda rörsins rennt inn um það. Ljósleiðaranum sjálfum verður blásið í gegnum rörin og hann tengdur við búnað sem komið er fyrir í húsinu.
Sveitarfélagið stefnir að því að hægt verði að tengja notendur hvers svæðis fyrir sig strax og lagningu og tengingu strengja lýkur á hverju svæði.
Hér er um byltingarkennda breytingu á öllum samskiptum að ræða en Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, leiddi nefnd sem mótaði áætlun um þetta mikla verkefni.
Fyrir neðan eru tvær myndir klukkan 23.20 í gærkvöldi - af Eyjafjallajökli og yfir til Vestmannaeyja. Bláminn lagðist yfir eftir góðan og bjartan sumardag - einn fárra sem komið hafa í ár.