8.6.2021 9:48

Línur skýrast á eldhúsdegi

Eldhúsdagsumræðurnar 7. júní 2021 leiddu í ljós brýna skyldu þeirra sem vilja marktækar umræður um íslensk stjórnmál til að ýta ESB-arfleið Jóhönnu ásamt stjórnarskrárarfleifðinni út í hafsauga.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherrann sem setti ESB-aðildarviðræðurnar á ís í janúar 2013 í von um að þær yrðu ekki átakamál í þingkosningabaráttunni þá um vorið, saknar þess nú að Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, flokks Össurar, minntist ekki á ESB-aðildina í eldhúsdagsumræðunum á alþingi að kvöldi mánudags 7. júní 2021. Össur sagði á FB-síðu sinni:

„Í ræðu formanns míns gamla flokks var ekkert að frétta af ESB-aðild sem þó var annað helsta áherslumál flokksins í ræðu Loga á flokksstjórnarfundi fyrir nokkrum dögum. Ég lifi það af – og hann vonandi líka.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, vildi ekki heldur „stuða“ áheyrendur með áköfu kalli um ESB-aðild og lét nægja að segja:

„Viðreisn vill aftur á móti tryggja stöðugleika og sambærilegt viðskiptafrelsi og nágrannalönd okkar njóta, með því að víkka út EES-samninginn og semja við Evrópusambandið um að tengja krónuna við evru, eins og Danir gera.“

Þessi boðskapur Viðreisnarformannsins um útvíkkun EES-samningsins barst ekki til Jóns Steindórs Valdimarssonar, eins fjögurra þingmanna Viðreisnar, sem sagði í lok ræðu sinnar: „Og það er þess vegna sem Ísland á að ganga í Evrópusambandið.“

Að fjögurra manna þingflokkur klofni í afstöðu sinni til ESB-málsins sem varð til þess að Viðreisn var stofnuð þætti fréttaefni tækju hlustendur orðin alvarlega.

10thingsalur_1623145513349

Úr fundarsal alþingis (mynd af vefsíðu alþingis).

ESB-aðildarmálið er erfiður arfur Samfylkingarinnar frá stjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur 2009-2013. Eina sem aðildarbröltið þá leiddi í ljós var hve illa var að öllum undirbúningi staðið af hálfu íslenskra stjórnvalda. Hefðu þau hins vegar vandað sig hefði umsóknin aldrei komið til sögunnar.

Fljótaskriftin og blekkingarnar náðu til fleiri mála undir forystu Jóhönnu og er þar nærtækt að nefna stjórnarskrármálið. Nú liggur fyrir lögfræðileg úttekt Kristrúnar Heimisdóttur um forkastanlega aðferð Jóhönnu og félaga við tilraunina til að breyta stjórnarskránni þvert á ákvæði gildandi stjórnarskrár.

Það er dæmigert að Píratar séu nú sá flokkur sem helst hampar stjórnarskrártillögum Jóhönnu. Píratinn Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sagði í þingræðu að kvöldi 7. júní:

„Og við viljum lögfestingu nýju stjórnarskrárinnar sem setur valdhöfum mörk og endurheimtir fiskinn úr sjónum úr klóm sægreifanna sem hafa fengið að vaða hér yfir allt á skítugum skónum allt of lengi.“

Skyldi þingmaðurinn vita hvað hún vill í raun og veru í stjórnarskrármálinu? Að fara með þá rullu sem hún gerði í ræðu sinni segir ekkert um hvað fyrir henni vakir. Hún vísar aðeins til blekkingaleiksins sem Jóhanna Sigurðardóttir hratt af stað.

Eldhúsdagsumræðurnar 7. júní 2021 leiddu í ljós brýna skyldu þeirra sem vilja marktækar umræður um íslensk stjórnmál til að ýta ESB-arfleið Jóhönnu ásamt stjórnarskrárarfleifðinni út í hafsauga. Það verður best gert með því að hafna þeim sem enn boða þá úreltu pólitík.