8.7.2022 9:50

Líkir VG við latan innikött

Í leiðaraorðum SER, ritstjóra Fréttablaðsins, birtist það sem Kolbrún sagði, Katrín Jakobsdóttir fengi „stundum yfir sig svívirðingaflaum, aðallega frá bitrum og fúllyndum karlmönnum“.

Skömmu eftir að menningarritstjóri Fréttablaðsins Kolbrún Bergþórsdóttir lýsti Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra sem „afburðastjórnmálamanni“ í leiðara blaðsins (10. júní 2022) var tilkynnt að henni hefði verið sagt upp störfum hjá blaðinu. Að sögn ritstjórans, Sigmundar Ernis Rúnarssonar (SER), vegna skipulagsbreytinga!

Í leiðaranum sagð Kolbrún einnig að Katrín forsætisráðherra fengi „stundum yfir sig svívirðingaflaum, aðallega frá bitrum og fúllyndum karlmönnum“. Það væri reyndar offramboð af slíkum karlmönnum í þessu landi en það væri önnur saga sem ekki yrði sögð hér.

Ekkert skal fullyrt um að þessi orð Kolbrúnar hafi orðið til þess að Sigmundur Ernir ákvað að slökkva á menningarvita Fréttablaðsins. Leiðarinn sem hann skrifaði í blað sitt í gær, fimmtudaginn 7. júlí, ber að minnsta kosti ekki neitt glaðlyndi með sér þegar hann hugsar til VG, flokks Katrínar forsætisráðherra.

Í raun er leiðarinn ekki aðeins sönnun þess að þau Sigmundur Ernir og Kolbrún eru á öndverðum meiði um hæfileika forsætisráðherrans heldur staðfesta skrif ritstjórans einnig réttmæti kenningarinnar um að sótt sé af dæmalausri óbilgirni gegn VG eftir að flokkurinn sagði skilið við Samfylkinguna og Pírata í borgarstjórn Reykjavíkur.

Um árabil hafa þingmenn Samfylkingarinnar (SER var um tíma í þeim hópi) og borgarfulltrúar stundað útilokunarstefnu gagnvart Sjálfstæðisflokknum. Nú er VG komið í sömu skúffu enda segir SER að flokknum sé „farið að svipa mikið til Sjálfstæðisflokksins“. Verra getur það varla orðið!

Um Katrínu Jakobsdóttur segir SER að hún sé „slíkur mannasættir í eðli sínu að ógerlegt [sé] til þess að hugsa“ að hún „steyti hnefann framan í formenn samstarfsflokkanna og aðra ráðherra þeirra sem fyrir vikið hafa það heldur náðugt í stólunum sínum“.

SER saknar átakastjórnmálanna þegar Steingrímur J. Sigfússon stóð í ræðustól þingsins og „hraunaði með eftirminnilegum tilþrifum yfir ángskotans auðhyggjuna og allt hennar ógurlega lið“.

Kisa_kurandiMyndin af kúrandi inniketti er fengin af vefsíðunni fuglavernd.is

SER saknar þess einnig þegar Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hans kveinkaði sér undan villiköttunum í þingflokki VG sem nú hafi „nefnilega breyst í latan og værukæran innikött sem fær ekki lengur að fara út í garð til að gera einhvern óskunda“. Kötturinn þurfi ekki lengur „að brýna klærnar og það [sé] löngu hætt að blika á vígalegar tennur hans“. Undarlegust sé undirgefni hans við eiganda sinn, sjálfan Sjálfstæðisflokkinn, og leyfi VG „miskunnarlaust blóðmerahald áfram og [láti] langreyðarkýrnar kveljast enn um sinn á hafi úti“.

Í leiðaraorðum SER, ritstjóra Fréttablaðsins, birtist það sem Kolbrún sagði, Katrín Jakobsdóttir fengi „stundum yfir sig svívirðingaflaum, aðallega frá bitrum og fúllyndum karlmönnum“.

Eftir að SER slökkti á menningarvitanum eru ekki margir ljósir punktar að styðjast við í stjórnmálaskrifum Fréttablaðsins. Þar ríkir almennt svartnætti í þeim níðangurslega anda sem birtist í leiðara ritstjórans 7. júlí 2022. Er langt um liðið síðan líkingar voru sóttar í dýraríkið til að niðurlægja andstæðinga.