Líkindi með Trump og Þórhildi Sunnu
Trump og menn hans hafa lagt sig fram um að kynna ákæruna og málssókn demókrata sem flokkspólitískt útspil - sama segir Þórhildur Sunna um bréf Ásmundar Friðrikssonar til Strassborgar.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur verið ákærður af fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Greidd voru atkvæði um ákæruna eftir 10 klukkustunda umræður í deildinni aðfaranótt fimmtudags 19. desember. Ákæruliðirnir eru tveir: (1) fyrir valdníðslu með því að reyna að fá yfirvöld í Úkraínu til að hefja sakamálarannsókn á hendur Joe Biden, fyrrv. varaforseta og þátttakanda í forsetaprófkjöri demókrata og (2) fyrir að hindra störf fulltrúadeildarinnar með framgöngu sinni í tengslum við rannsóknirnar á hennar vegum.
Forsetinn var ekki í Washington þegar þingmenn ræddu tillöguna um ákæru. Hann var á fundi stuðningsmanna sinna í Michigan og sagði meðal annars:
„Á sama tíma og við fjölgum störfum í Michigan láta róttækir vinstrisinnar í fulltrúadeildinni stjórnast af öfund og reiði, þið sjáið hvað er á seyði,“ sagði forsetinn og einng að demókratar reyndu „ að gera að engu atkvæði tugmilljóna bandarískra föðurlandsvina“.
Forsetinn og menn hans hafa lagt sig fram um að kynna ákæruna og málssókn demókrata sem flokkspólitískt útspil þeirra sem þola ekki að tapa kosningum.
Demókratinn Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, hefur í hendi sér hvenær hún sendir ákæruna til öldungadeildarinnar sem dæmir í málinu. Talið er víst að niðurstaðan þar verði eftir flokkslínum og meirihlutinn, repúblíkanar, sýkni forsetann.
Forsetinn hefur ekki leynt reiði sinni yfir ákærunni. Hann talar svo niðurlægjandi til demókrata að minnir helst á skammirnar sem Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, lét dynja á Ásmundi Friðrikssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, fyrir að „leyfa sér“ að vekja athygli Liliane Maury Pasquier, forseta þings Evrópuráðsins í Strassborg, á að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, flokkssystir Björns Levís, hefði fyrst íslenskra þingmanna gerst brotleg við siðareglur alþingismanna.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir stjórnar fundi laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins. Fyrst þingmanna var hún talin brjóta siðareglur alþingismanna..
Píratinn Þórhildur Sunna varð árið 2017 formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins og tilkynnti sig þar inn í þingflokk jafnaðarmanna og hlaut þar með kosningu sem formaður laga- og mannréttindanefndar þingsins.
Að upplýsa forseta Evrópuráðsþingsins um álit siðanefndar vegna Þórhildar Sunnu er réttur Ásmundar Friðrikssonar. Raunar hefur tilkynningarskylda um það á vettvangi Evrópuráðsþingsins hvílt á henni sjálfri, ekki síst sem eindregnum talsmanni gagnsæis og ábyrgðar.
Þórhildur Sunna brást á hinn bóginn mjög illa við fréttinni um tilkynningu Ásmundar og valdi þá leið að setja hana í stórt pólitíski samhengi eins og Donald Trump gerir vegna ákærunnar gegn sér. Slíkar yfirlýsingar hafa vafalaust áhrif á einhverja en þær breyta ekki efni málsins: ákæra hvílir á Trump og Þórhildur Sunna braut siðareglur alþingismanna. Undan staðreyndum verður ekki vikist með stóryrðum.