20.2.2024 10:25

Lík Navalníjs í felum

Fjölskylda Navalníjs er sannfærð um að honum hafi verið byrlað eitur og lík hans verði ekki afhent fyrr en talið er fullvíst að við rannsókn á því finnist engin merki um eitrunina.

Julía Navalnaja (47 ára), ekkja Alexeis Navalníjs andstæðings Vladimirs Pútins Rússlandsforseta, lýsti mánudaginn 19. febrúar yfir að hún ætlaði að feta í fótspor eiginmanns síns og berjast áfram gegn Pútin og Kremlverjum.Navalníjs og lögfræðingum hans hefur enn ekki tekist að fá að sjá lík Navalníjs en rússnesk yfirvöld tilkynntu um dauða hans föstudaginn 16. febrúar. Er ekki unnt að sannreyna dánarorsökina án krufningar óháðra lækna.

Pussy Riot Protest Alexei Navalny's Death at Russian Embassy in Berlin

Pussy Riot skipulögðu mótmæli gegn Pútin og morðingjum hans við sendiráð Rússa í Berlín – til minningar um Alexei Navalníj.

Laugardaginn 17. febrúar sagði starfsmaður í fangelsinu í Síberíu þar sem Alexei Navalnæíj var í haldi að lík hans hefði verið flutt í líkhús í nágrannabænum Salekhard. Þegar móðir Navalnijs kom að líkhúsinu með lögfræðingi sínum var það sagt lokað. Lögfræðingurinn náði sambandi við einhvern í dyrasíma sem sagði að líkið væri ekki þar. Fulltrúi í sakamálarannsóknarnefnd Rússlands sagði við annan lögfræðing Navalníjs að dánarorsökin hefði „ekki verið ákvörðuð“ og líkið yrði ekki afhent að svo stöddu.

Í rússneska blaðinu Novaja Gazeta er haft eftir ónafngreindum heimildarmanni að líkið hafi verið í líkhúsi í Salekhard frá því að kvöldi föstudagsins 16. febrúar án þess að hafa verið rannsakað. Áverkar séu á líkinu.

Sunnudaginn 18. janúar dreifðu blaðamenn frá Mediazona myndskeiði frá 16. febrúar sem sýnir lest opinberra ökutækja á leið til Salekhard frá bæ nálægt fangelsi Navalníjs.

Mánudaginn 19. febrúar var móður Navalníjs og lögfræðingum hans vísað á brott frá líkhúsinu í Salekhard. Var einn lögfræðinganna beittur valdi.

Síðar þennan sama dag sagði Dmitrij Peskov, talsmaður Pútins, að ákvarðanir um lík Navalníjs væru ekki teknar innan veggja Kremlar, það væri ekki verkefni forsetaskrifstofunnar.

Að kvöldi mánudagsins sagði Kira Jarmíjsh, blaðafulltrúi Navalníj-stofnunarinnar, að rússneska sakamálarannsóknarnefndin hefði sent lík Navalníjs til „efnarannsóknar“ sem tæki 14 daga.

Ofangreint er af vefsíðu Meduza, sjálfstæðs rússnesks fjölmiðils sem starfar utan Rússlands. Þar segir einnig þriðjudaginn 20. febrúar að í Kreml líti menn á dauða Navalníjs sem „mjög neikvæðan atburð“ í kosningabaráttu Pútins en 15. til 17. mars eru forsetakosningar í Rússlandi.

Pútin telur sig skorta tíma til að taka þátt í sjónvarps- eða útvarpsþáttum með þeim þremur sem einnig hafa gefið kost á sér án þess þó að lýsa í raun andstöðu við Pútín!

Hvað sem líður gervibaráttunni um forsetaembættið varpar dauði Navalníjs skugga á Pútin og allt það sem einkennir stjórnarhætti hans þar sem þeir hverfa einn af öðrum sem sýna forsetanum andstöðu eða ögra valdi hans á einhvern hátt.

Fjölskylda Navalníjs er sannfærð um að honum hafi verið byrlað eitur og lík hans verði ekki afhent fyrr en talið er fullvíst að við rannsókn á því finnist engin merki um eitrunina.