3.4.2019 10:06

Lífskjarasamningar á lokastigi

Aðilar hafa komið sér saman um að kalla samningana „lífskjarasamninga“ og gefur heitið til kynna að samið sé um meira en kaup og kjör.

Þegar þetta er skrifað bendir allt til þess að ritað verði undir kjarasamning síðdegis í dag (3. apríl). Boðað hafði verið til blaðamannafundar á vegum ríkisstjórnarinnar í Ráðherrabústaðnum kl. 18.30 í gærkvöldi til að kynna samninginn og aðild ríkisstjórnarinnar að honum. Fundurinn var blásinn af á síðustu stundu en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi í beinni útsendingu við fréttamenn sjónvarpsstöðvanna.

1121321Myndina tók Eggert fyrir mbl. Á henni eru fulltrúar launþega og ríkissáttasemjari á sáttafundi.

Fram kom í samtali við Vilhjálm Birgisson, verkalýðsforingja frá Akranesi, í beinni útsendingu í fréttum á Stöð 2 að afboðun blaðamannafundarins boðaði ekkert uppnám í kjaraviðræðunum hjá ríkissáttasemjara heldur hefðu talsmenn aðila talið sig þurfa lengri tíma til að „fínpússa“ flókna texta. Varð mörgum vafalaust létt við að heyra þetta.

Í 22.00 fréttum ríkissjónvarpsins var fréttamaður í beinni útsendingu fyrir utan skrifstofur Eflingar-stéttarfélags og sagði að innan dyra væri fundað um umboð Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns félagsins, til að ganga að kjarasamningnum. Sagðist fréttamaðurinn hafa séð tvo menn ganga af fundinum og réð af svip þeirra að þungt væri í mönnum! Fréttamennska af þessu tagi er í raun ekki boðleg. Ef til vill var tilgangurinn að vekja þá tilfinningu hjá áhorfendum að Sólveig Anna ætti í erfiðleikum og afboðun blaðamannafundarins mætti rekja til þess. Þessi sviðsetning fréttastofunnar var marklaus. Sólveig Anna hlaut heimild yfirgnæfandi meirihluta samninganefndar Eflingar til þess að ganga frá kjarasamningum við Samtök atvinnulífsins.

Aðilar hafa komið sér saman um að kalla samningana „lífskjarasamninga“ og gefur heitið til kynna að samið sé um meira en kaup og kjör. Í allan vetur hafa fulltrúar ríkisstjórnarinnar átt reglulega fundi með fulltrúum atvinnulífsins. Þar hefur verið farið yfir þau mál sem af opinberri hálfu eru helst talin til þess fallin að greiða fyrir viðunandi lausn í þessum viðræðum sem nú lýkur.

Ríkisstjórnin lá ekkert á hugmyndum sínum heldur kynnti þær opinberlega meðal annars í ræðu sem forsætisráðherra flutti þegar alþingi kom saman eftir jólaleyfi 21. janúar 2019. Þar nefndi ráðherrann framboðsvanda á húsnæðismarkaði, réttindi og vernd leigjenda, innkomu þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign og fleira, tillögur að skattkerfisbreytingum og félagsleg undirboð. Tillögur stjórnvalda um öll þessi mál hafa legið fyrir opinberlega. Þær verða hluti lífskjarasamninganna sem kynntir verða í dag.

Mikilvægt er að samningar eru gerðir til þriggja ára og mestu skiptir að ekki verði um neina kollsteypu að ræða heldur verði áfram hlúð að þeim vexti kaupmáttar sem einkennt hefur efnahags- og atvinnulífið undanfarin ár.