Leyniþjónustudraumar Þorgerðar Katrínar
Undir stjórn ÞKG á utanríkisráðuneytinu hófst þar útþenslustefna innan stjórnarráðsins. CERT-IS var tekin undan innviðaráðuneytinu þrátt fyrir viðvaranir og andmæli.
Gerist það oft að stjórnmálamenn verði á heimavelli að færa ummæli sín við erlenda fjölmiðla í nýjan búning fyrir samlanda sína vekur það ónot og jafnvel ugg um að þeir hafi ekki viðkomandi málefni þannig á valdi sínu að þeir geti komið skoðun sinni óbrenglaðri á framfæri á erlendri tungu.
Nú á Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (ÞKG) utanríkisráðherra fullt í fangi með að útskýra orð sín við vikuritið The Economist í lok júlí þar sagði hún meðal annars:
„Landið gæti einangrast ef sæstrengir þess yrðu rofnir. Það hefur enga leyniþjónustu til að elta uppi skemmdarvarga og njósnara. Þorgerður segist styðja stofnun slíkrar [leyniþjónustu].“
Tilvitnunin er úr Morgunblaðinu í dag (5. ágúst) en þar fer ÞKG undan í flæmingi þegar hún er beðin að skýra orð sín, hún sé ekki hlynnt því að stofnuð verði leyniþjónusta hérlendis. Hins vegar sé mikilvægt „að Ísland efli eigin greiningargetu svo við séum ekki að öllu leyti háð öðrum þjóðum við mat á hættu og ógn sem að okkur steðjar. Það sé hægt að gera með því að efla netöryggissveitina CERT-IS og greiningardeild Ríkislögreglustjóra.“
Þegar hún er spurð „hvernig hún sjái fyrir sér að efla CERT-IS og greiningardeild Ríkislögreglustjóra“ vísar utanríkisráðherra til samráðshóps þingmanna vegna mótunar öryggis- og varnarstefnu“. Hópurinn muni senn skila af sér niðurstöðum vinnu sinnar, grunni að stefnu í varnar- og öryggismálum.
Undir forystu ÞKG var stigið alrangt skref með því að innlima CERT-IS í utanríkisráðuneytið og búa til sérstaka greiningareiningu innan ráðuneytisins með svonefndum eldvegg gagnvart annarri starfsemi ráðuneytisins. Að utanríkisráðherra sé ábyrgur fyrir slíkri greiningarvinnu er fáheyrt.
Líklegt er að ÞKG hafi í samtalinu við The Economist séð fyrir sér að hún gæti útfært starfsemi sína frekar undir merkjum CERT-IS – í raun er ekkert útilokað í því efni. Þótt starfsemi þessarar stofnunar sé borgaraleg í eðli sínu og hún sé þjónustu- og öryggisstofnun fyrir þá sem starfa í netheimum á Íslandi er hún nú orðin hluti hernaðarlegrar starfsemi undir varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.
Undir stjórn ÞKG á utanríkisráðuneytinu hófst þar útþenslustefna innan stjórnarráðsins. CERT-IS var tekin undan innviðaráðuneytinu þrátt fyrir viðvaranir og andmæli. Þá lagði ÞKG fram frumvarp um að ráðuneyti hennar skyldi hafa alræði í útgáfu Schengen-vegabréfsáritana í þeim tilgangi að margfalda útgáfu slíkra áritana. Í öllu sem frá utanríkisráðuneytinu kemur um það mál er farið niðrandi orðum um útlendingastofnun og starf hennar undir stjórn dómsmálaráðuneytisins. Vafalítið verður þetta frumvarp endurflutt á haustþinginu. Tal dómsmálaráðherra um norska stefnu í útlendingamálum á sama tíma og utanríkisráðuneytið vinnur að þessu er marklaust.
ÞKG kastar leyniþjónustuboltanum út af vellinum með því að vísa á hópinn sem Aðalsteinn Leifsson leiðir fyrir hana um varnar- og öryggismál. Það sýnir að hún er að hugsa um einhvers konar greiningarstofnun undir utanríkisráðuneytinu. Vísan til hópsins er grátbrosleg því að hann er sprunginn vegna tafaleikja og ómarkvissra vinnubragða.