7.9.2025 10:35

Léttvægt kosningaglamur

Þegar stjórnmálamenn tala eins og kosningin sé sjálfgefin dyggð – án þess að ræða til hvers hún leiðir – þá vantar kjarnann í lýðræðisumræðuna.

Í nýlegum greinum Viðreisnarmannanna Jóns Steindórs Valdimarssonar og Þorsteins Pálssonar um það markmið þeirra að Ísland gangi í ESB er þjóðaratkvæðagreiðsla ríkisstjórnarinnar um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið sett á stall sem sjálfstætt markmið.

Þótt gengið sé til kosninga eru þær ekki markmið í sjálfu sér. Þær eru tæki til að taka upplýsta ákvörðun um efnisatriði. Þegar stjórnmálamenn tala eins og kosningin sé sjálfgefin dyggð – án þess að ræða til hvers hún leiðir – þá vantar kjarnann í lýðræðisumræðuna.

Það hefur hvergi komið fram að þeir flokkar sem fyrir kosningar lýstu yfir að þeir hygðust ekki beita sér fyrir þjóðaratkvæði vegna ESB ætli nú að leggja stein í götu atkvæðagreiðslunnar sem boðuð hefur verið fyrir árslok 2027.

Það er því rangt þegar Þorsteinn Pálsson segir í grein á dv.is 4. september: „Stjórnarandstöðuflokkarnir þrír [Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Miðflokkurinn] hafa aftur á móti verið einhuga á móti þjóðaratkvæði.“

Það er munur á því að ákveða að leggja ekki fram frumvarp og því að standa ekki gegn atkvæðagreiðslu sem ríkisstjórnin ákveður að halda um eigið frumvarp. Stjórnmálaflokkar eru ekki andvígir atkvæðagreiðslu þótt þeir stofni ekki sjálfir til hennar. Stjórnarandstöðuflokkarnir ganga að sjálfsögðu til þjóðaratkvæðagreiðslunnar þótt þeir séu andvígir aðild Íslands að ESB.

Istockphoto-2156736417-612x612

Í þessu tilliti skiptir einmitt efni málsins mestu, kjósendur viti fyrir atkvæðagreiðsluna til hvers hún leiðir. Um hvað er í raun verið að kjósa? Þar birtist veikleikinn í málflutningi bæði Jóns Steindórs og Þorsteins. Þeir tala um þjóðaratkvæðið eins og í því felist sjálfgefin lausn á áratugalangri umræðu. Láti ríkisstjórnin undir höfuð leggjast að skýra eftir hverju hún sækist efnislega er atkvæðagreiðslan aðeins formsatriði.

Hér er rétt að minna á að Feneyjanefndin, ráðgefandi nefnd Evrópuráðsins um lýðræðislegar stofnanir og kosningalöggjöf, hefur sett fram viðmið um þjóðaratkvæðagreiðslur. Samkvæmt þeim verða kostirnir sem bornir eru upp að vera skýrir og skiljanlegir. Kjósendur verði að vita nákvæmlega hvaða afleiðingar atkvæði þeirra hefur. Annars sé villt um fyrir þjóðinni.

Er til dæmis ekki nauðsynlegt að vita hvort meirihluti sé á þingi fyrir breytingu á stjórnarskránni sem heimilar framsal valds til ESB? Samhliða aðildarviðræðunum 2009 til 2013 voru heitar umræður utan og innan þings um nýja stjórnarskrá. Á að stofna til slíkra umræðna að nýju í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðsluna 2027?

Hvernig verður staðið að sjávarútveginum í viðræðum við ESB? Hverjir verða fyrirvarar í landbúnaði og orkumálum?

Lýðræði snýst ekki aðeins um að spurt sé heldur einnig um að þjóðin viti um hvað hún er spurð. Kjarninn er ekki að kjósa – heldur að kjósa með fullri vitneskju um til hvers atkvæðið leiðir.