Lengi lifir í ESB-glæðunum
Ummæli Jóns Steindórs benda til þess að innan Viðreisnar lifi enn vonin um að geta sett ESB-aðildina á dagskrá íslenskra stjórnmála.
Árlegar umræður um skýrslu utanríkisráðherra fóru fram á alþingi fimmtudaginn 4. maí ekki hefur enn unnist tími til að skrá nema hluta þeirra á vefsíðu þingsins.
Eftir að Guðlaugur Þór Þórðarson hafði flutt ræðu sinni veitti Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, ráðherranum andsvar og vék að þessum orðum í skýrslu ráðherrans:
„Nú, þegar umræðan hér á landi um viðskiptastefnuna er að mestu laus úr viðjum kröfunnar um aðild að Evrópusambandinu, er full þörf á að styrkja starf okkar innan EFTA og EES.“
Þá sagði Jón Steindór:
„Ég er algjörlega sammála ráðherranum um seinni hluta ræðunnar, en mér finnst fyrri parturinn býsna skringilegur og vísa þar til stjórnarsáttmálans þar sem skýrt er kveðið á um það að komi fram tillaga um þjóðaratkvæði á síðari hluta kjörtímabilsins verði það mál leitt til lykta. Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að fara aðeins yfir það með okkur hvað hann á við með þessum viðjum?“
Sé ráðið í þessi orð verða þau skilin á þann veg að Jón Steindór sé sammála þeirri skoðun að styrkja beri starf íslenskra stjórnvalda innan EFTA og EES en sætti sig ekki við orðið „viðjum“ af því að það gefi neikvæða mynd af kröfunni um aðild að ESB. Að nota þetta orð er fyllilega réttmætt. Vilji menn lýsa skorðunum sem ESB-aðildarviðræðurnar settu íslenskum stjórnvöldum er orðið „viðjar“ vel viðeigandi. Þær voru notaðar til að þrengja að okkur í Icesave-málinu og við ákvarðanir um makríl veiðikvóta svo að tvö mikilvæg málefni séu nefnd.
Jón Steindór lætur þess ógetið varðandi hugsanlega tillögu um ESB undir lok kjörtímabilsins að stjórnarflokkarnir ætla ekki allir að standa að slíkri tillögu miði hún að því að endurvekja misheppnaða og vanhugsaða aðildarferlið.
Ummæli Jóns Steindórs benda til þess að innan Viðreisnar lifi enn vonin um að geta sett ESB-aðildina á dagskrá íslenskra stjórnmála. Aðdráttarafl ESB er svo mikið gagnvart þingmönnum Viðreisnar að engu er líkara en þeir víki skynseminni til hliðar þegar sambandið ber á góma.