19.10.2020 10:11

Leitin að uppljóstrara Ásmundar

Undarlegast við afstöðu fréttastofu ríkisútvarpsins og Kjarnans til þess máls er að blaðamönnunum þyki ekki sjálfsagt að opinberar stofnanir upplýsi skattgreiðendur frá degi til dags eða a.m.k. vikulega um ferðir hælisleitenda um landamærin.

Fréttastofa ríkisútvarpsins hefur undanfarna daga leitað álits forystumanna Sjálfstæðisflokksins á frásögnum Ásmundar Friðrikssonar alþingismanns af fjölda hælisleitenda á Keflavíkurflugvelli þegar ferðalög milli landa eru í lágmarki.

Til marks um hve fréttnæmt þykir að menn ferðist á þessum tímum má nefna að þess er getið á forsíðu Morgunblaðsins í dag (19. október) að Hallgrímur Helgason rithöfundur sé á ferð um Þýskaland. Í frétt inn í blaðinu segir: „Það er mjög skrýtið að ferðast núna og maður finnur að maður er staddur á sögulegum tímum. Keflavíkurflugvöllur var eins og Reykjavíkurflugvöllur og Kastrup líka. Síðan er nóg pláss í lestunum,“ segir Hallgrímur. “

Hitt er ekki síður fréttnæmt hve margir koma hingað til lands á þessum undarlegu tímum og sækja um alþjóðlega vernd. Hefði mátt ætla að fjölmiðlar upplýstu hvaðan þetta fólk kemur og leituðu skýringa á ferðum þess alla leið til Íslands.

Í dag upplýsir vefsíðan Kjarninn okkur um að Ásmundur hafi ekki fengið tölurnar um fjölda hælisleitenda frá Útlendingastofnun. Ásmundur hefur sagt að ónafngreindur maður hafi hringt í sig og sagt sér tölurnar. Það er með öðrum orðum uppljóstrari að baki tölum Ásmundar.

Whistleblowing-protectionÖrlög uppljóstrara eru misjöfn. Tali þeir við umsjónarmenn Kveiks í sjónvarpinu eða leggi WikiLeaks til efni eru þeir gjarnan hafnir upp til skýjanna. Veiti uppljóstrari Ásmundi Friðrikssyni alþingismanni upplýsingar um komu hælisleitenda til landsins er leitað að honum með logandi ljósi eins og um skúrk sé að ræða. Ef uppljóstrari hefði sagt eitthvað nýtt um fjölda ekinna kílómetra Ásmundar á ferðum til kjósenda hans hefði honum vafalaust verið hampað í fréttatímum ríkisútvarpsins og á Kjarnanum.

Eftir að Útlendingastofnun sagðist ekki hafa veitt Ásmundi upplýsingar sneri Kjarninn sér til umsjónarmanns sóttvarnarhúsa. Hann sagði upplýsingar um fjölda hælisleitenda sem í húsin koma dag frá degi ekki gefnar utanaðkomandi, hvorki fjölmiðlum, stjórnmálamönnum né öðrum. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu veit ekki til þess að fyrirspurnir um fjölda hælisleitenda hafi brotist embættinu og það hafi ekki veitt neinar slíkar upplýsingar.

Eftir árangurslausa leit að uppljóstraranum segir Kjarninn frá tölunum sem Ásmundur hefur birt. Sunnudaginn 11. október sagði Ásmundur á Facebook:

„Síðustu þrjár vikur hafa komið 54 hælisleitendur og kostnaðurinn vegna þeirra fyrir ríkissjóð því 324 milljónir.“

Undarlegast við afstöðu fréttastofu ríkisútvarpsins og Kjarnans til þess máls er að blaðamönnunum þyki ekki sjálfsagt að opinberar stofnanir upplýsi skattgreiðendur frá degi til dags eða a.m.k. vikulega um ferðir hælisleitenda um landamærin. Þær skipta landsmenn miklu, jafnvel meiru en að Hallgrímur Helgason hafi nóg lestarpláss á ferðalagi sínu um Þýskaland.

Miðlun upplýsinga um ferðir fólks, sýnatöku, smithópa og annað er mikil um þessar mundir. Tölfræðin tröllríður þar öllu. Hvers vegna þessi leynd varðandi komu hælisleitenda? Kann einhver skýringu á henni?