13.4.2017 18:50

Leiksoppur í átökum Gunnars Smára og Jóns Ásgeirs

Augljóst er að nafnlausi höfundur Markaðarins hefur getið sér rétt til um pólitísk áform Gunnars Smára. „Sök“ mín er að vitna til þessara orða þótt mig hafi grunað að Jón Ásgeir væri höfundur þeirra.

Hér var miðvikudaginn 12. apríl vitnað í nafnlausa forystugrein sem birtist þann sama dag í Markaðnum, fylgiblaði Fréttablaðsins. Þar er varað við stuðningi við það markmið Gunnars Smára Egilssonar að verða ráðherra og fá rétt til að ráðstafa almannafé – þetta sé langtímamarkmið hans með því að stofna Sósíalistaflokk Íslands. Ég gat mér þess til að Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrv. viðskiptafélagi Gunnars Smára, væri höfundur þessara skrifa í Markaðinn. Gunnar Smári staðfestir það á Facebook-síðu sinni í dag í löngum pistli sem hefst á þessum orðum:

„Mikill er máttur þessa Gunnar Smára, segi ég nú bara. Þarna hoppar Björn Bjarnason upp í rúm til Jóns Ásgeirs og vitnar í nafnlausa pistlana sem hann skrifar í Markaðinn, fylgirit Fréttablaðsins (sem ég tók þátt í að stofna og koma á legg ásamt góðu fólki og er nú orðið svo til eina eign Jóns Ásgeirs, öðru hefur hann týnt og glatað). Björn styður delluhugmyndir Jóns Ásgeirs um að ég og allir aðrir en hann sjálfur hafi skuldsett hann og ekki borgað skuldirnar hans. Og líklega líka að einhverjir aðrir hafi flutt peninga sem hann svindlaði út úr fyrirtækjum sem honum var treyst fyrir í skattaskjól.“

Gunnar Smári segist hafa unnið í fyrirtækjum þar Jón Ásgeir átti hlut „og get ekki mælt með því,“ segir hann. Hér verður ekki rakin lýsing Gunnars Smára á sorglegri, sameiginlegri viðskiptasögu hans og Jóns Ásgeirs. Hana má nálgast hér.

Nyhedsavisencollagw.width-720Svona kynnir Kjarninn.is frétt sína um ágreining Gunnars Smára og Jóns Ásgeirs.

Augljóst er að nafnlausi höfundur Markaðarins hefur getið sér rétt til um pólitísk áform Gunnars Smára. „Sök“ mín er að vitna til þessara orða þótt mig hafi grunað að Jón Ásgeir væri höfundur þeirra. Sú grunsemd ýtti raunar undir áhuga minn á að geyma ummælin hér á síðunni. Þarna talar maður sem hefur langa og dýrkeypta reynslu af viðskiptasamstarfi við Gunnar Smára. Ætla ég ekki að blanda mér í illdeilur þeirra um hverjum var að kenna að samstarfið leiddi til milljarða taps.

Fylkisflokkurinn

Gunnar Smári boðar að hann ætli að stofna Sósíalistaflokk Íslands 1. maí 2017 á degi verkalýðsins. Hann ætlar að feta í fótspor Jónasar Jónssonar frá Hriflu sem beitti sér fyrir stofnun tveggja flokka árið 1916: Framsóknarflokksins og Alþýðuflokksins.

Sumarið 2014 stofnaði Gunnar Smári Fylkisflokkinn. Meginmarkmið með stofnun flokksins var að vinna að endursameiningu Íslands og Noregs með því að Ísland yrði 20. fylki Noregs; íslenska yrði eitt af ríkismálum Noregs; norska ríkinu bæri samkvæmt stjórnarskrá að vernda og efla íslenska menningu og tungu; og að Íslendingar nytu allra réttinda norskra borgara.

„Í umræðunni um Ísland sem 20. fylki Noregs heyrast stundum þau andmæli að þetta sé ekki raunhæf hugmynd, aðeins draumórar. Í þessum andmælum liggur mikill misskilningur. Íslenska þjóðin þarf nefnilega fyrst af öllu að læra að dreyma á ný,“ sagði Gunnar Smári þá.

Til að höfða til stofnfélaga kynnti Gunnar Smári 10 punkta kosningaloforð flokksins eins og sjá má á vefsíðunni Eyjunni frá 11. ágúst 2014. Loforðin voru þessi:

„1. Íslenska krónan verður lögð niður og nothæfur gjaldmiðill tekinn upp.

2. Launataxtar flestra starfstétta munu hækka um allt að 100%. Vinnandi fólk mun geta lifað af launum sínum.

3. Elli- og örorkulífeyrir mun hækka svo lífeyrisþegar munu geta lifað mannsæmandi lífi.

4. Verðtrygging lána verður aflögð.

5. Fólki verður gert mögulegt að hefja útgerð og byggja upp fyrirtæki í sjávarútvegi með dugnaði sínum.

6. Raunveruleg samkeppni í verslun og þjónustu verður tryggð. Ísland verður ekki lengur einangrað markaðssvæði sem tveir eða þrír sterkir aðilar skipta á milli sín.

7. Vinnuvikan verður stytt í 37,5 klukkustundir. Laun fyrir dagvinnu mun duga fyrir góðu lífi, fæstir munu þurfa að vinna yfirvinnu og flestir munu fá meiri tíma fyrri fjölskyldu og frístundir.

8. Hluti námslána verður styrkur og lánshlutinn ber lága óverðtryggða vexti sem eru auk þess frádráttarbærir frá skatti.

9. Afborganir af húsnæðislánum lækka og eignamyndun almennings við húsnæðiskaup er tryggð. Stöðugleiki í efnahagsmálum dregur úr fjárhagslegum áföllum venjulegs launafólks. Kaup á húsnæði verður ekki áhættufjárfesting.

10. Íslensku stjórnmálaflokkarnir munu ekki geta eyðilagt grunnkerfi samfélagsins sem líf og öryggi venjulegs fólks byggir á. Völd gömlu flokkana takmarkast við ákvarðanir á fylkis- og sveitastjórnarstigi (meðan einhver kýs þá). Mögulegt er að flokkarnir þroskist af tengslum sínum við þroskaðri umræðu- og ákvarðanahefð í Noregi.“

Þegar Eyjan birti fréttina um Fylkisflokkinn sagði Svanur Kristjánsson, þáv. prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, á Eyjunni:

„Flott framtak. Nú verða önnur stjórnmálaöfl í landinu - sem og frambjóðendur í komandi forsetakosningum - að svara skilmerkilega tveimum spurningum:

1. Hver er draumurinn og framtíðarsýnin fyrir íslenska þjóð ?

2. Hvernig á að láta drauminn og framtíðarsýnina rætast ?“

Forseti Íslands var kjörinn 25. júní 2016 án þess að Fylkisflokkurinn kæmi við sögu og flokkurinn lét ekki heldur á sér bera í þingkosningunum 29. október 2016. Vaknar hann til lífs núna samhliða Sósíalistaflokki Íslands? Eða verða punktarnir 10 einfaldlega gerðir að stefnuskrá Sósíalistaflokksins?

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, telur, eins og prófessor Svanur um árið vegna Fylkisflokksins, að líta beri á Sósíalistaflokkinn sem raunverulega stærð í stjórnmálalífinu og Andrés Jónsson almannatengill tekur undir þá skoðun.