Leigumorð í Danmörku
Af afbrotafréttum af íslenskum vettvangi má ráða að hingað til lands séu sendir hópar til að stunda vændi eða fara ránshendi um verslanir.
Frá því í apríl 2024 eru 25 skráð atvik hjá dönsku lögreglunni um að skipulagðir glæpahópar í Danmörku hafi greitt Svíum fyrir að vinna refsiverð verk í danskri lögsögu. Lögreglan veit að greiddar eru allt að 200.000 DKR (4,2 milljónir ISK) fyrir þjónustuna. Í mörgum tilvikum koma ófullveðja Svíar (yngri en 18 ára) við sögu.
Danski dómsmálaráðherrann, jafnaðarmaðurinn Peter Hummelgaard, skýrði frá þessu fimmtudaginn 7. ágúst að loknum fundi með fulltrúum lögreglunnar í National Enhed for Særlig Kriminalitet, NSK, það er ríkisdeild gegn skipulagðri glæpastarfsemi.
Ráðherrann sagði að Danir hefðu kynnst ýmsum afbrigðum glæpaverka en nú bættist við enn eitt: að danskir glæpahópar kaupi leigumorðingja, barnahermenn frá Svíþjóð. Þar sé hægt að ráða þá til að vinna verk í Danmörku.
Ráðherrann segir „mjög uggvænlega“ atburði verða í Danmörku af þessum sökum og eru nefndar til sögunnar þrjár vopnaðar árásir undanfarið þar sem þrír unglingar eru ákærðir fyrir morðtilraunir: Skotárás á Blågårds Plads í Kaupmannahöfn; skotárás í skartgripaverslun á Frederiksberg og sprenging í söluturni á Hans Knudsens Plads í Kaupmannahöfn þar sem beitt var handsprengju.
Peter Hummelgaard, dómsmálaráðherra Dana.
Danska ríkisútvarpið, DR, segir að ekki hafi verið skýrt opinberlega frá öllum málum af þessu tagi sem komið hafi inn á borð lögreglunnar vegna þess að henni hafi tekist að hindra að ódæðisverk yrðu framin.
Lögregluforingi í NSK segir að að „ágreiningur innan glæpasamfélagsins“ búi að baki því sem nú gerist.
Eitt þeirra úrræða sem danski dómsmálaráðherrann nefndi var að taka upp landamæraeftirlit á brúnni yfir Eyrarsund, það er milli Danmerkur og Svíþjóðar. Hann lagði þó áherslu á að ekkert benti til þess að koma hefði mátt í veg fyrir það sem gerst hefur á liðnum vikum með landamæraeftirliti. Lögreglan færi þó nú fram á að fá að nýta tækni til andlitsgreiningar.
Af afbrotafréttum af íslenskum vettvangi má ráða að hingað til lands séu sendir hópar til að stunda vændi eða fara ránshendi um verslanir. Dýrum smávarningi sé stolið og hann fluttur úr landi af fólki sem gert sé út í slíka þjófnaðarleiðangra frá útlöndum.
Þá kunna einstaklingar að vera leigðir til Íslandsferða í alvarlegri tilgangi, þar með til ofbeldisverka í átökum glæpahópa.
Allt undirstrikar þetta mikilvægi þess að vel sé staðið að landamæravörslu og hún framkvæmd á þann veg að afgreiðsla mála sé hröð og sett í forgang fyrir utan að fullkomnasta greiningartækni sé notuð bæði á farþegalistum og með ljósmyndun til andlitsgreiningar.
Um 98% allra sem ferðast til og frá landinu fara um Keflavíkurflugvöll. Haga ber skipulagi löggæslu á þann veg að þar sé þröskuldur í höndum einingar sem líkja má við NSK í Danmörku og starfi beint á ábyrgð ríkislögreglustjóra. Skal enn einu sinni hvatt til þess hér á þessum vettvangi að skipulagi landamæravörslunnar sé breytt. Eftir hverju er beðið?