18.1.2018 10:54

Lega landsins - efnahagsleg auðlind

Afstaðan til Íslands vegna strategískra hagsmuna var allt önnur árið 2008 en í upphafi sjötta áratugarins.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor ritaði langa grein í Morgunblaðið í gær (17. janúar) um viðbrögðin við bankahruninu. Þar dregur hann fram þætti sem örugglega setja svip á skýrslu sem væntanleg er frá honum um sama efni og rituð er á ensku undir handarjaðri Félagsvísindastofnunar HÍ með fjárstuðningi frá fjármálaráðuneytinu. Kjarni málsins er að skorið var á lánalínur til bankanna og seðlabankar á Norðurlöndunum og Bandaríkjunum neituðu Seðlabanka Íslands um fyrirgreiðslu samhliða því að breska ríkisstjórnin vísaði til ákvæða í neyðarlögum til að níðast á íslensk-breskum lánastofnunum í Bretlandi. 

Í umræðum um bókina Líftaug landsins í HÍ þriðjudaginn 16. janúar nefndi Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor legu Íslands og hernaðarlegt mikilvægi sem einn af meginþáttum þess að Ísland breyttist á síðustu öld úr fátækasta ríki Evrópu í eitt af þeim ríkustu. Hann vakti einnig máls á þeirri staðreynd sem birtist í töflu í bókarhluta Guðmundar Jónssonar prófessors að hlutfallslega fengu Íslendingar mest fé frá Marshall-aðstoðinni. Þjóðverjar hefðu fengið mun minna þótt tilgangur aðstoðarinnar væri að reisa Evrópu úr rústum stríðsins sem ekki þurfti hér á landi. 

Þetta var í upphafi sjötta áratugarins þegar línur skerptust hratt á milli lýðræðisríkjanna í vestri og kommúnistaríkjanna í austri. Kapphlaup var milli ráðamanna Bandaríkjanna og Sovétríkjanna um að draga sem flestar þjóð í sinn dilk. Sem betur fer skipuðu Íslendingar sér undir merki NATO og lögðu áherslu á gott samstarf við Bandaríkjastjórn.  

Afstaðan til Íslands vegna strategískra hagsmuna var allt önnur árið 2008 en í upphafi sjötta áratugarins. Varnarstöðinni á Keflavíkurflugvelli var lokað árið 2006. NATO lagði enga áherslu á gerð varnaráætlana fyrir Norður-Atlantshaf, litið var á Rússa sem samstarfsþjóð en ekki andstæðing. Allt þetta breyttist eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga í mars 2014 og studdu við aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu sem beittu vopnavaldi, meðal annars rússneskri eldflaug til að skjóta niður farþegaþotu á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur. 

Þetta ber að hafa í huga þegar fróðleg grein Hannesar Hólmsteins er lesin. Ákvarðanir um þau mál sem þar eru rædd taka stjórnvöld ekki í strategísku tómarúmi heldur eftir mat á öllum aðstæðum. Atburðirnir 2008 sanna skoðun Gylfa Zoëga um að líta beri á hernaðarlegt mikilvægi Íslands sem eina stoðina undir miklum efnahagsframförum hér á 20. öldinni. 

Viðbrögðin við falli bankanna haustið 2008 voru snögg og markviss, tekin einhliða af íslenskum stjórnvöldum í samráði við erlenda ráðgjafa. Að svona var unnt að ganga til verks má rekja til þess að Ísland er ekki innan Evrópusambandsins.  

Í ljósi örlaga Grikkja vegna skuldakreppunnar felst ótrúleg þversögn í að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og aðrir forystumenn Samfylkingarinnar notuðu hrunið til að knýja á um aðild að ESB. Grikkir voru festir í skuldafjötra til að bjarga þýskum og frönskum bönkum frá falli og sitja enn í þeim.