Lausnarbeiðni Katrínar
Í yfirlýsingu forseta felst að hann væntir þess að meirihluti þingmanna standi að baki ríkisstjórninni sem nú situr sem starfsstjórn þar til að hann fær tillögu meirihlutans um nýjan forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdótir baðst lausnar sem forsætisráðherra í gær (7. apríl) fyrir sig og ráðuneyti sitt. Forseti Íslands fól henni og ráðuneyti hennar að starfa áfram með svofelldri yfirlýsingu:
„Fyrr í dag gekk Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á fund minn og baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Ég samþykkti þá lausnarbeiðni en fól forsætisráðherra og ráðuneytinu að sitja áfram uns ný ríkisstjórn hefur verið mynduð, í samræmi við stjórnskipun landsins.
Formenn þeirra stjórnmálaflokka, sem eiga aðild að núverandi ríkisstjórn, hafa tjáð mér að þeir hafi hug á að halda stjórnarsamstarfi áfram undir forystu nýs forsætisráðherra. Þess má vænta að senn komi í ljós hver það verður.“
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra afhendir Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, lausnarbeiðni sína í bókastofunni á Bessastöðum 7. apríl 2024 (mynd: mbl.isEyþór).
Á vefsíðunni Viljanum laugardaginn 6. apríl var sagt að fyrsti staðgengill Katrínar, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra, tæki að „öllu óbreyttu“ við því embætti forsætisráðherra á ríkisráðsfundi sunnudaginn 7. apríl, hvort sem það yrði tímabundið í „nokkurs konar starfsstjórn“ eða út kjörtímabilið.
Viljinn nefndi engan heimildarmann fyrir því sem fullyrt var að væri „formleg staða“ málsins. Við skoðun á henni var greinilega litið fram hjá því að forsætisráðherra baðst ekki aðeins lausnar fyrir sig heldur ráðuneytið sem starfar samkvæmt tillögu forsætisráðherra til forseta Íslands. Í stjórnarráðslögunum segir:
„Forseti Íslands skipar forsætisráðherra. Forseti Íslands skipar aðra ráðherra samkvæmt tillögu forsætisráðherra. Forseti Íslands veitir forsætisráðherra og ráðuneyti hans sem og einstökum ráðherrum lausn frá embætti samkvæmt tillögu forsætisráðherra.“
Í yfirlýsingu forseta felst að hann væntir þess að meirihluti þingmanna standi að baki ríkisstjórninni sem nú situr sem starfsstjórn þar til að hann fær tillögu meirihlutans um nýjan forsætisráðherra sem síðan leggur fram tillögur um aðra ráðherra. Þetta er inntak þingræðisins sem bindur hendur forseta.
Í frétt á ruv.is að morgni 8. apríl segir:
„Þingflokksformenn funda með forseta Alþingis fyrir hádegi til að ræða dagskrá þingsins í ljósi breytts pólitísks landslags. Gagnrýnt er hve mörg stjórnarfurmvörp eru á dagskrá þar sem meginreglan sé sú að starfstjórnir beiti sér ekki fyrir umdeildum eða pólitískum málum.“
Þarna er talað um að „pólitíska landslagið“ hafi breyst vegna lausnarbeiðni Katrínar. Ekkert hefur þó komið fram um að svo sé. Stjórnarflokkarnir þrír ráða ráðum sínum um eftirmann hennar og forgangsröðun verkefna á lokamánuðum kjörtímabilsins. Það er ekki unnt að kalla það breytingu á „pólitíska landslaginu“ þótt svipur þess sé annar við brottför Katrínar.
Þá er síðari liðurinn um gagnrýni á fjölda stjórnarfrumvarpa á þingdagskránni skrýtinn. Ekkert þessara frumvarpa varð til eftir að Katrín Jakobsdóttir baðst lausnar, að baki þeim er ótvírætt pólitískt umboð. Þá er viðurkennd stjórnskipunarregla að starfsstjórn hefur ekki skertar heimildir til að leggja fram frumvörp og getur hún til dæmis lagt fram fjármálaáætlun.