Lausn í augsýn vegna Grænlands
Þessari ályktun Trumps getur enginn hafnað. Íslenskir ráðamenn verða að leggja þessa staðreynd til grundvallar í öllum vangaveltum um framtíðarstöðu þjóðarinnar og samskipti okkar við önnur ríki.
Í aðdraganda þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti sneri við blaðinu í Davos miðvikudaginn 21. janúar lögðu margir álitsgjafar og stjórnmálamenn spádómsgáfu sína að veði með fullyrðingum um að nú væri NATO að líða undir lok. Bandalag ríkjanna beggja vegna Atlantshafs þyldi ekki álagið vegna deilunnar sem sprottið hefur vegna ásælni Trumps í garð Grænlands. Þeir verða nú að draga í land.
Hámark fordæmingarinnar birtist eftir að Trump lýsti yfir því laugardaginn 17. janúar að hann ætlaði að leggja refsitolla á átta Evrópuríki fyrir að styðja málstað danska konungsríkisins með því að senda fulltrúa herja sinna til Nuuk.
Bandarískir fallhlífarhermenn við æfingar á norðurslóðum.
Í ræðu í Washington þriðjudaginn 20. janúar mismælti forsetinn sig einu sinni og nefndi Ísland þegar hann átti við Grænland. Í Davos gerði hann það fjórum sinnum. Þetta var vandræðalegt – bæði fyrir forsetann og áheyrendur – en um leið áminning um hve laus í reipunum orðræða hans er þótt hann tali um svæði og ríki sem skipta lykilmáli fyrir öryggi Bandaríkjanna og Norður-Atlantshafs.
Eitt af því sem Trump sagði þegar hann ræddi um Grænland í Davos (og nefndi Ísland) var að mikil niðursveifla hefði orðið á mörkuðum vegna málsins. Líklegt er að þetta hafi ráðið miklu um stefnubreytingu forsetans. Bandarískar hlutabréfavísitölur hækkuðu mikið eftir fréttir af ræðu hans um að hann myndi ekki ráðast inn í Grænland. Vísitölurnar hækkuðu svo aftur þegar Trump tilkynnti nokkrum klukkustundum síðar að hann myndi ekki leggja á refsitollana eftir að hafa náð „rammasamkomulagi um framtíðarsamning“ um Grænland við NATO. Nánari upplýsingar kæmu síðar.
Í ræðu sinni dró Trump ekkert undan í gagnrýni sinni á Evrópuríkin. Þau væru á rangri braut. Hann benti á að Danir og aðrar Evrópuþjóðir ættu í erfiðleikum með að verja Grænland fyrir Bandaríkjunum eða nokkrum öðrum. „Það eru einungis Bandaríkin sem geta varið þetta risavaxna landsvæði, þennan risastóra ísjaka, byggt það upp og bætt,“ sagði hann.
Þessari ályktun Trumps getur enginn hafnað. Íslenskir ráðamenn verða að leggja þessa staðreynd til grundvallar í öllum vangaveltum um framtíðarstöðu þjóðarinnar og samskipti okkar við önnur ríki. Við erum í þeim heimshluta þar sem hvorki ríkir stöðugleiki né öryggi nema Bandaríkjamenn eigi þar hlut að máli.
Fyrsta formlega skrefið því til staðfestingar var stigið sumarið 1941 þegar Bandaríkjaher kom hingað á grundvelli þríhliða samkomulags og leysti breska hernámsliðið af hólmi við gæslu öryggis hér og á N-Atlantshafi. Ríkisstjórn Íslands í konungssambandi við Danmörku var aðili að þessu samkomulagi.
Það er okkur og öllu öryggi á norðurslóðum og Norður-Atlantshafi að nú náist þríhliða samkomulag stjórnvalda Bandaríkjanna, Grænlands og Danmerkur um samstarf innan vébanda NATO.