22.8.2022 10:46

Launmorð í nágrenni Pútins

Launmorð eru sögulegur hluti umróts í rússneskum stjórnmálum langt aftur í aldir.  Stalín nýtti sér launmorðingja til að skapa sér svigrúm til sýndarréttarhalda og fjöldaaftaka.

Daria Dugina var myrt að kvöldi laugardags 20. ágúst á heimleið frá menningarviðburði í nágrenni Moskvu. Sprengja grandaði henni og Toyota Land Cruiser sem hún ók. Lögregla telur að um launmorð sé að ræða. Vangaveltur eru um að ætlunin hafi verið að drepa föður Dariu, Alexander Dugin, öfgasinnaðan þjóðernissinna, hugmyndafræðing um Stór-Rússland og þar með áhrifamann hjá Vladimir Pútin Rússlandsforseta – „heila Pútins“ kalla hann sumir. Hugmyndafræðingnum snerist hugur á síðustu stundu og settist ekki í bílinn hjá dóttur sinni.

_126394487_c63e1433-a991-44e0-9f6a-f9f9254a7e22Alexander Dugin hugmyndafræðingur Pútins.

Moskvumenn saka Úkraínumenn um að standa að baki launmorðinu. Í Kýiv er því harðlega hafnað. Bent er á að þótt tekist hafi með leynd að granda rússneskri flugherstöð á Krímskaga sé allt annað og viðameira að standa að launmorði í Moskvu.

Þess er minnst í þessu sambandi að í meira en tvo áratugi hafa legið fyrir grunsemdir um að rússneska öryggislögreglan, FSB, sem laut um tíma stjórn Pútins, hafi sprengt íbúðablokk í Moskvu til að skapa Pútin svigrúm til að sigrast á aðskilnaðarsinnum í Tjsetsjeníu við upphaf forsetaferils síns.

Launmorðið nú sé að undirlagi FSB til að skapa Pútin svigrúm til enn meiri hörku í garð Úkraínumanna og þétta raðir Rússa að baki honum. Innrásin í Úkraínu hafi mistekist en nú þegar sex mánuðir séu liðnir frá upphafi hennar verði Pútin að sýna að her hans geti meira. Morðið sé átylla til að efla baráttuviljann.

Ilja Ponomarev, fyrrverandi þingmaður í rússnesku Dúmunni, segir að andspyrnuhreyfing innan Rússlands, Þjóðlegi lýðveldisherinn, standi að baki morðinu á Dariu. Ponomarev er í Kyív en Pútin rak hann frá Rússlandi. Hann segir að lýðveldisherinn eigi eftir að ógna fleirum sem tengist Kremlverjum, þetta sé bara byrjunin.

Þá er einnig uppi kenning um að auðmaður sem við blasi gjaldþrot vegna stefnu Pútins hafi keypt launmorðingja til að hrella Kremlverja.

Hver sem skýringin er á þessu ódæðisverki er hitt staðreynd að einræðisherrar í klípu grípa oft til voðaverka í von um að efla stuðning við sig á örlagatímum eða til að fá átyllu til að herða grimmdarverkin sem þeir stunda.

Launmorð eru sögulegur hluti umróts í rússneskum stjórnmálum langt aftur í aldir. Á liðinni öld nýtti Stalín sér launmorðingja innan Sovétríkjanna og utan til að skapa sér svigrúm til sýndarréttarhalda og fjöldaaftaka.

Enn er ekki ljóst hvað Pútin gerir næst til að rétta hlut Rússa í Úkraínu. Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti býr þjóð sína undir að Rússar vinni ódæði miðvikudaginn 24. ágúst þegar Úkraínumenn fagna sjálfstæði sínu frá Rússum í 31. skipti.