Laugardalurinn hjá borgarstjóra
Í mörg misseri hefur ráðaleysi Reykjavíkurborgar vegna deilna verktaka við framkvæmdir til endurbóta á íþróttaaðstöðu í Laugardalnum tafið fyrir öllum úrbótum þar.
Um páskana urðu enn á ný umræður um svonefnda þjóðarhöll, það er innileikvang fyrir handbolta og körfubolta sem stenst alþjóðlegar kröfur. Málum er ekki þannig háttað lengur í Laugardalshöll sem raunar hefur raunar ekki verið í notkun til íþróttaiðkana í tvö ár vegna leka og vandræða vegna útborðsmála sem fylgja viðgerð á henni. Virðist það stjórnsýslu Reykjavíkurborgar ofviða að takast á við það sem kallað hefur verið „verktakastríð“ í Laugardalnum og hefur meðal annars sett starfsemi íþróttafélagsins Þróttar skorður.
Þegar aðstöðuleysi til íþróttaiðkana samkvæmt alþjóðlegum kröfum bar til umræðu á alþingi 31. janúar sagði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, sem fer með íþróttamálin í ríkisstjórn, að komast yrði að niðurstöðu um hvaða þjóðarleikvanga þyrfti, fyrir utan þjóðarhöllina væri rætt um þjóðarleikvang fyrir knattspyrnu og í þriðja lagi fyrir frjálsar íþróttir. Ráðherrann sagði það hafa verið eitt sitt fyrsta verk sem nýs ráðherra þessara mála í lok nóvember 2021 að efna til funda með þeim sem að þessum málum koma og taldi hann íþróttahreyfinguna sjálfa „vera komin svolítið á þá blaðsíðu að vera búin að kjarna þetta“ eins og hann orðaði það. Hét ráðherrann því „að koma þessu máli sem hraðast áfram“ og batt hann „vonir við að við komumst ansi langt á þessu vormisseri við að teikna upp hvernig við förum í þetta mikilvæga verkefni“.
Eftir 34 - 26
sigur íslenska landsliðsins í handbolta á Austurríki að Ásvöllum í Hafnarfirði
laugardaginn 16. apríl kallaði Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari það
þjóðarskömm að hér skyldi ekki vera þjóðarhöll sem gæti hýst leik eins og
þennan landsleik.
Frá Laugardalshöll.
Daginn eftir var rætt við Dag B. Eggertsson borgarstjóra í fréttum ríkisútvarpsins og endurtók hann þá sem hann hafði áður sagt að Reykjavíkurborg hefði „frátekna peninga fyrir íþróttahús í Laugardal“ yrðu áform um þjóðarhöll „að skýrast á þessu vori“ annar sæi borgin ekki „annan kost en að byggja sérstakt hús fyrir“ Þrótt og Ármann í Laugardalnum, krakkar þar væru í brýnni þörf fyrir aukna æfingaaðstöðu. Vill borgarstjóri að ákvörðun um byggingu þjóðarhallar liggi fyrir 1. maí 2022.
Við þessi ummæli borgarstjóra beinist athyglin ekki að þjóðarhöllinni heldur þeirr þeirri staðreynd að í mörg misseri hefur ráðaleysi Reykjavíkurborgar vegna deilna verktaka við framkvæmdir til endurbóta á íþróttaaðstöðu í Laugardalnum tafið fyrir öllum úrbótum þar.
Vegna þess að útboð vegna endurbóta Laugardalshallar er sífellt kært hafa börn og unglingar sem stunda inniíþróttir s.s. blak og handbolta nær enga möguleika til að stunda sína íþrótt.
Það dugar ekki fyrir Dag B. að veifa fjárheimildum hann verður að tryggja að unnt sé að vinna verkin á þann hátt að friður sé um þau en ekki útboðs- og stjórnsýsludeilur. Það er meira að segja ekki alveg á hreinu hvort Reykjavíkurborg vill í raun þjóðarhöll og þjóðarleikvanga í Laugardalinn eða hann nýtist fyrir hverfisfélögin tvö.
Á meðan þessir lausu endar eru ekki hnýttir af ráðamönnum Reykjavíkur er þjóðarhöllin og allt annað tengt þjóðarleikvöngum í biðstöðu.