18.3.2017 15:35

Laugardagur

Reykjavíkurborg stendur svo illa fjárhagslega undir stjórn Dags B. Eggertssonar og félaga að hún er komin í húsnæðisbrask við sjálfa sig til að ná í húsaleigubætur eldri borgara. Frá þessu er sagt á þennan hátt í DV 17. mars í grein eftir Björn Þorfinnsson.

Reykjavíkurborg stendur svo illa fjárhagslega undir stjórn Dags B. Eggertssonar og félaga að hún er komin í húsnæðisbrask við sjálfa sig til að ná í húsaleigubætur eldri borgara. Frá þessu er sagt á þennan hátt í DV 17. mars í grein eftir Björn Þorfinnsson.

Í greininni kemur fram að Félagsbústaðir hf., sem eru í 100% eigu Reykjavíkurborgar, hafi keypt þjónustuíbúðirnar í Seljahlíð í Breiðholti af borginni. Fyrsta verkið var að segja upp leigusamningum hinna öldruðu íbúa frá og með 1.apríl. Þegar árs uppsagnafrestur er liðinn þá býðst íbúunum að skrifa undir nýja leigusamninga þar sem húsaleigan hækkar um 80-125%. Í kynningu fyrirtækisins var hækkunin sett í þann búning að íbúar gætu sótt um húsaleigubætur. Íbúar í Seljahlíð eru afar ósáttir við þessar breytingar og í samtali við DV bendir Ingibjörg S. Finnbogadóttir, sem situr í húsráði, að íbúðirnar uppfylli ekki skilyrði í lögum um húsaleigubætur þar sem að í þeim er engin séreldunaraðstaða. Að hennar sögn eru hækkanirnar til skammar.

Nokkrar umræður hafa orðið um þessar ráðagerðir á Facebook og segir Jóhanna Kristjónsdóttir, rithöfundur og blaðamaður, meðal annars:

„Hjúkrunar- og þjónustuheimilið að Seljahlíð hefur eignast nýjan eiganda- að nafninu til. Samtímis var tækifærið notað til að hækka leiguna á eldri borgarana, sömuleiðis á mat og kaffibollann. Mikið er ég hneyksluð. Samfylkingin hefur sannarlega brugðist illilega.“

Vegna þessarar færslu Jóhönnu segir Ragnheiður Skúladóttir:

„Borgin er að klóra í bakkan. Borgarstjórn veit að hún fellur í næstu kosningum og þar með er þeim sama þó þeir eyðileggi eitt og annað því þeir eru bara að undirbúa stjórnarandstöðu. Þetta er til háborinnar skammar og ég vona í fyrsta skipti á ævinni að Samfylkingin líði undir lok og verði jarðsett í kyrrþey ásamt afleggjurum Besta flokksins sáluga. Brandarinn er löngu hættur að vera fyndinn. Það sannast nú að fáir stjórnmálamenn eru að vinna fyrir fólkið í landinu. Eigin hagsmunir ráða för í einu og öllu. Ömurlegt að horfa upp á þetta.“

Þetta minnir mig enn á spurninguna sem nauðsynlegt er að velta fyrir sér vegna næstu borgarstjórnarkosninga: Ætlar Samfylkingin að bjóða fram í Reykjavík? Eða annars staðar á höfuðborgarsvæðinu? Hún var þurrkuð út í fjölmennustu kjördæmum landsins í þingkosningunum 29. október 2016.

Aðförin að umferðaröryggi í borginni, húsnæðislausu fólki og eldri borgurum bendir ekki til þess að ætlunin sé að leita eftir umboði kjósenda að nýju.