25.11.2024 8:48

Langt frá Kanturk til Akureyrar

Bera má saman atvikið í VMA á Akureyri og það sem gerðist í kjörbúðinni í írska bænum Kanturk. Í báðum tilvikum voru flokksleiðtogar í kosningaleiðangri.

Kosið verður til þings á Írlandi föstudaginn 29. nóvember. Þar eins og hér keppast frambjóðendur við að fara sem víðast til að hitta eins marga háttvirta kjósendur og frekast er kostur.

Á vefsíðunni Politico var laugardaginn 23. nóvember sagt frá vandræðum sem valdið hafi Simon Harris forsætisráðherra og leiðtoga miðjuflokksins Fine Gael álitshnekki og kunni að leiða til fylgistaps flokks hans.

Forsætisráðherrann (38 ára) neyddist laugardaginn 23. nóvember til að biðja starfsmann fötlunarþjónustu afsökunar vegna framgöngu sinnar í 2.800 íbúa bænum Kanturk.

Charlotte Fallon stóð í biðröð við afgreiðslukassa í Supervalu-kjörbúð að kvöldi föstudagsins 22. nóvember. Náði írska ríkissjónvarpið, RTÉ, mynd af því sem fór á milli hennar og forsætisráðherrans.

Harris hafði gengið fram hjá Fallon á leið úr versluninni en sneri við þegar hún kallaði á eftir honum að stjórn hans gerði ekki nóg fyrir opinbera starfsmenn eins og hana sem veittu fötluðum þjónustu. „Þið hafið ekki gert neitt fyrir okkur, skjólstæðingar okkar líða fyrir það,“ sagði hún.

Harris svaraði hörkulega og hafnaði þessum. Hann var hryssingslegur þegar hann rétti henni höndina og reyndi að eiga síðasta orðið áður en hann flýtti sér til fagnandi myndatöku með stuðningsmönnum Finn Gael utan dyra.

Þegar atvikið hafði breyst í mesta sjálfsmark Finn Gael í kosningabaráttunni birti Harris afsökun á Instagram þar sem hann lagði þó mesta áherslu á að réttlæta orð sín. Hann hefði þó ekki gefið sér þann tíma sem þurfti til að ræða við Fallon og myndskeiðið sýndi hann ekki í réttu ljósi. Hann ætti einhverfan bróður og hefði alla tíð látið sig málefni fatlaðra miklu varða.

Forsætisráðherrann hringdi einnig í Fallon og baðst afsökunar og bauðst til að hitta hana til að átta sig betur á gagnrýni hennar. Eftir símtalið sagði Fallon við The Irish Times að henni væri enn brugðið vegna „hryllilegrar“ framkomu ráðherrans. Vonandi ætti enginn nokkru sinni eftir að lenda í neinu sambærilegu, það væri ekki mjög ánægjulegt að halda grátandi heim til sín.

Screenshot-2024-11-25-at-08.47.33Skjáskot af visir.is

Á Akureyri

Miðvikudaginn 20. nóvember sagði Vísir frá því að aðstoðarskólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri (VMA) hefði vísað Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og öðrum fulltrúum Miðflokksins úr húsakynnum skólans þann sama dag eftir að formaður flokksins hefði verið staðinn að kroti á spjöld og hluti frá öðrum flokkum (sjá mynd).

Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari VMA staðfesti þessa frásögn og sagði frá því á Vísi að þrír efstu frambjóðendur Miðflokksins í Norðausturkjördæmi hefðu komið óboðnir í húsakynni skólans.

Móðir pilts í skólanum sagði að fulltrúar Miðflokksins hefðu að Sigmundi Davíð viðstöddum uppnefnt son hennar framsóknardrenginn/fávitann/djöfulinn vegna þess að hann spurði fulltrúa Miðflokksins á frambjóðendafundi um tollalækkanir á landbúnaðarvörum á árinu 2015 þegar Sigmundur Davíð var forsætisráðherra, Gunnar Bragi utanríkisráðherra og Sigurður Ingi landbúnaðarráðherra, allir framsóknarmenn á þeim tíma.

Vegna þessara frétta sagði Sigmundur Davíð meðal annars á Facebook:

„Ég sé að hinar stórundarlegu bullfréttir byggðar á samtölum við Samfylkingarskólastjórann í VMA halda áfram. Allt einhver fullkomin þvæla frá einstaklingi sem var ekki á staðnum. Þvæla sem auk þess breytist stöðugt. [...] Þessi framganga skólastjórans og augljós pólitískur tilgangur hennar er með stökustu ólíkindum.“

Flokksformaðurinn kallar skólameistarann einnig Samfylkingaraktivista vegna þessa atviks. Sigríður Huld skipaði 22. sætið á lista Samfylkingarinnar í sveitarstjórnarkosningum á Akureyri.

Athyglisvert er að sjá hve margir miðflokksmenn fagna framgöngu formanns síns í athugasemdum við færslu hans. Þeir eru augljóslega sannfærðir um að hann sé saklaust fórnarlamb sem sæti enn einu sinni ofsóknum.

Samanburður

Bera má saman atvikið í VMA og það sem gerðist í írska bænum Kanturk. Í báðum tilvikum voru flokksleiðtogar í kosningaleiðangri.

Annars vegar kynnumst við hrokafullum frambjóðanda sem lendir óvenjulega oft í þeirri pínlegu stöðu að logið sé upp á hann, megi marka orð hans sjálfs. Hins vegar er auðmjúkur frambjóðandi sem viðurkennir mistök sín og vill gera gott úr þeim, geti hann það.

Írskir fjölmiðlar brutu málið til mergjar og segja að í skoðanakönnun sem birtist sunnudaginn 24. nóvember hafi Finn Gael tapað fjórum stigum vegna atviksins í Kanturk.

Hér virðist staðan sú vegna atviksins í VMA að orð muni standa á móti orði og Sigmundur Davíð geti baðað sig sem fórnarlamb í fögnuði stuðningsmanna sinna. Trúverðugleika skólameistara og nemenda skal fórnað til ágætis fyrir sjálfan sterka manninn!