21.4.2018 12:13

Landsbókasafnið 200 ára

Óhagræðið af því að um 20 ár taki að reisa opinbera byggingu eins og Þjóðarbókhlöðuna ætti að verða öllum víti til varnaðar. Ekki má stefna í það sama með Hús íslenskra fræða.

Þess var minnst miðvikudaginn 18. apríl að í ár eru 200 ár liðin frá stofnun Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Efnt var til athafnar í Þjóðarbókhlöðunni og þar var opnuð sýningin Tímanna safn þar sem sögð er saga safnsins.

Athyglin á sýningunni beinist ekki síst að aðstöðunni sem safninu hefur verið búin í tveggja alda sögu þess. Safnið fluttist á milli nokkurra höfuðbygginga þar til að það fluttist í eigið húsnæði, Þjóðarbókhlöðuna, árið 1994. Safnið var á Dómkirkjuloftinu 1825 til 1881, í Alþingishúsinu 1881 til 1908, í Safnahúsinu 1909 til 1994 og síðan í Þjóðarbókhlöðunni.

Í ár má einnig minnast þess að 50 ár eru liðin frá því að ákvörðun var tekin um að reisa sérhannað hús yfir safnið. Árið 1968 var tilkynnt að Þjóðarbókhlaða yrði reist sem höfuðminnisvarði hátíðarhalda í tilefni af 11 alda byggðar á Íslandi árið 1974 og var þingsályktunartillaga samþykkt í þessa veru á alþingi árið 1970. Þá var jafnframt tilkynnt að safnhúsið risi á Birkimel nálægt Hringbraut. Árið 1972 voru arkitektarnir Manfreð Vilhjálmsson og Þorvaldur S. Þorvaldsson ráðnir til að teikna bókhlöðuna.

Fyrsta skóflustunga að byggingunni var tekin 28. janúar 1978 og var byrjað að grafa fyrir Þjóðarbókhlöðu. Sökklar og botnplata voru steypt það ár, kjallarinn árið 1980 og 1981 allar fjórar hæðir steyptar upp. Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands, lagði hornstein að Þjóðarbókhlöðunni 23. september 1981, á 740. ártíð Snorra Sturlusonar.

Fjáröflun til að ljúka byggingunni gekk illa en árið 1986 samykkti alþingi lög um „þjóðarátak til byggingar Þjóðarbókhlöðu“ og mælti fyrir um sérstakan eignarskatt í þessum tilgangi. Bæta skyldi 0,25% á eignarskattstofn landsmanna árin 1987-1989 og skyldu tekjurnar renna óskiptar til Þjóðarbókhlöðunnar. Það gerðist ekki en árið 1990 var gerð áætlun um að ljúka gerð bókhlöðunnar 1994 og það tókst.

Heimildin fyrir byggingarsögu Þjóðarbókhlöðunnar er skráin sem gefin er út í tilefni af 200 ára afmælissýningunni. Skattheimtan sem hófst árið 1987 stóð í um það bil áratug og varð til sjóður sem nýttur var til viðhalds á svonefndum menningarbyggingum. Líklega var hérðasskólahúsið sem Guðjón Samúelsson teiknaði í Reykholti í Borgarfirði síðasta byggingin sem naut fjár úr sjóðnum undir aldamótin 2000.

Um svipað leyti og endurbótum á héraðsskólahúsinu lauk var ákveðið að breyta Safnahúsinu í Þjóðmenningarhús. Í Safnahúsinu voru þá enn svonefnd varaeintök Landsbókasafnsins og voru þau flutt til geymlsu í austurálmu héraðsskólahússins í Reykholti. Þar þrengist um þau og er brýnt að reisa sérhannað varðveisluhús vegna þeirra og ef til vill annarra muna sem eðilegt þykir að geyma utan höfuðborgarsvæðisins.

Útlitsmynd af Húsi íslenskra fræða, til vinstri sést í austurhlið Þjóðarbókhlöðunnar.

Óhagræðið af því að um 20 ár taki að reisa opinbera byggingu eins og Þjóðarbókhlöðuna ætti að verða öllum víti til varnaðar. Ekki má stefna í það sama með Hús íslenskra fræða. Grunnur þess hefur verið tekin fyrir austan Þjóðarbókhlöðuna enda lá fyrir skýrsla um gerð þess þegar árið 2007.

Ætlunin er að byggingin hýsi fjölbreytta starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands. Þar verður miðstöð rannsókna og kennslu í íslenskum fræðum; tungu, bókmenntum og sögu. Húsið mun sömuleiðis varðveita frumgögn um íslenska menningu; handrit, skjöl, orða- og nafnfræðisöfn og þjóðfræðasöfn.

Í nýrri fimm ára fjármálaáætlun ríkisins er gert ráð fyrir fjárveitingum til hússins. Vonandi verður ekki hróflað við henni.