Landsbanki á villigötum
Af þessu má ráða að það var ásetningur stjórnenda bankans að hafa afstöðu ráðherrans að engu enda staðfesti bankastjórinn það í fjölmiðlum 18. mars.
Landsbankinn birti mánudaginn 18. mars á vefsíðu sinni tilkynningu frá Kviku banka hf. um að Kvika hefði 17. mars ákveðið að taka skuldbindandi tilboði Landsbankans um kaup á hlutafé í TM fyrir 28,6 milljarða kr. í reiðufé. Markmiðið væri að ljúka endanlegri áreiðanleikakönnun og undirrita kaupsamning milli bankanna um kaup og sölu 100% hlutafjár TM eins fljótt og auðið væri, með hefðbundnum fyrirvörum, s. s. samþykki Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og Samkeppniseftirlitsins. Í tilkynningu Landsbankans um kaupin sagði að möguleg kaup væru m. a. háð niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins og fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.
Af tilkynningunum má ráða að þeir sem sömdu þær hafi ekki talið nauðsynlegt að nefna bankasýsluna til sögunnar. Stjórnendur hennar voru annarrar skoðunar.
Í bréfi til Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, fjármála- og efnahagsráðherra, dags. 18. mars segir forstjóri Bankasýslu ríkisins (BR) að BR hafi ekki fengið neinar formlegar upplýsingar á nokkrum tímapunkti um þátttöku Landsbankans í söluferlinu á TM. Þvert á móti hafi stjórn BR talið „einsýnt að ekki yrði af viðskiptunum af hálfu Landsbankans í kjölfar viðtals við fjármála- og efnahagsráðherra þann 6. febrúar sl. Var sú afstaða ráðherra rædd á stjórnarfundi BR þann 8. febrúar sl. og bókað að ráðherra hugnaðist ekki að Landsbankinn kaupi TM“.
Þá segir í bréfinu að stjórn BR hafi haldið fund með bankaráði Landsbankans 18. mars og spurt um viðskiptin. Þá segir: „Það er mat BR að Landsbankanum hafi borið að upplýsa um fyrrgreind viðskipti með skýrum og formlegum hætti skv. samningi aðila frá desember 2010. Slíkt var því miður ekki gert. Það kom hins vegar fram á fundinum með bankaráði að því hafi verið ljóst (svo) fyrrgreind afstaða ráðherra til kaupanna“.
BR fer með 98,2% eignarhlut ríkisins í Landsbankanum og í bréfi til bankans 18. mars lýsir BR yfir „vonbrigðum með ákvarðanatöku og upplýsingagjöf“ vegna kaupanna á TM, óskar eftir greinargerð vegna viðskiptanna innan 7 daga og frestar síðan aðalfundi bankans um 4 vikur en hann átti að halda 20. mars.
Af þessu má ráða að það var ásetningur stjórnenda bankans að hafa afstöðu ráðherrans að engu enda staðfesti bankastjórinn það í fjölmiðlum 18. mars. Það er eitt, annað að láta hjá líða að tryggja jákvæða afstöðu Bankasýslu ríkisins.
Halldór Friðrik Þorsteinsson sem hefur mikla reynslu í íslensku viðskiptalífi segir á Facebook í dag (19. mars) um þetta mál:
„Það er einkennilegt að bankastjóri Landsbankans sé að svara fyrir kaupin á TM. Þetta er ákvörðun stjórnar bankans og ekki hluti af daglegum rekstri sem bankastjórinn ber fyrst og fremst ábyrgð á. Það er líka einkennilegt að stefnumótun bankans virðist ekki vera í samráði við eiganda hans.
Það er margreynt að banki og tryggingafélag fara ekki vel saman. Landsbankinn átti einu sinni VÍS, Íslandsbanki Sjóvá og nú er Kvika búin að reyna með TM. Nær væri að hagræða í rekstrinum, fjárfesta í stafrænum lausnum og lækka þjónustugjöld eins og dæmi eru um hjá öðrum og einfaldari sparisjóði.“