15.7.2020 9:56

Landamæri opnuð

Miðað við fréttir frá nágrannalöndunum er þörf fyrir æ sterkari og markvissari rökum fyrir því að halda úti sýnatöku úr fólki við komu til landsins eða framfylgja kröfum um sóttkví

Nú eru reglur einstakra Evrópuríkja um ferðafrelsi þrátt fyrir COVID-19-faraldurinn þannig að erfitt er að átta sig á undantekningum frá frelsinu. Þá er almennt ekki að sjá að farþegar séu skimaðir eða skyldaðir til að fara í sóttkví við komu til einstakra landa heldur ríki gagnkvæmt traust. Einnig virðist mismunandi hvort skylt sé að setja upp grímur inni í flugvélum. Líkur á kröfum um það vaxa þó samhliða meiri áróðri en áður um að menn veri grímur séu þeir innan um annað fólk í opinberu rými.

9663e9c44cb1bbe16dad7245ccf2c8bf4a9511de6c952b711cf0100ae64f5154Nokkur breyting verður í einstökum löndum í dag (15. júlí). Norðmenn fá til dæmis heimild til að ferðast til Frakklands, Spánar, Grikklands, Ítalíu og Þýskalands auk fjölmargra annarra Evrópulanda.

Í gær var tilkynnt hér að ferðamenn frá Danmörku, Noregi, Finnlandi og Þýskalandi bættust á lista með Færeyjum og Grænlandi og verði frá og með fimmtudeginum 16. júlí undanþegnir kröfum um skimun og sóttkví vegna COVID-19. Íslendingar sem snúa aftur heim verða einnig undanþegnir lögboðnum varúðarráðstöfunum, en eru hvattir til að sýna varúð fjórtán daga eftir heimkomu, viðhalda einstaklingsbundnum smitvörnum og forðast á þeim tíma samneyti við viðkvæma einstaklinga. Þeir einstaklingar sem hafa íslenskt ríkisfang og einstaklingar sem búsettir eru á Íslandi og hafa komið frá löndum sem tilheyra áhættusvæði þurfa að fara í skimun á landamærum, viðhafa heimkomusmitgát og fara í aðra sýnatöku fjórum til sex dögum eftir heimkomu sbr. reglum sem tóku gildi 13. júlí.

Í frétt á vefsíðu landlæknis segir þriðjudaginn 14. júlí:

„Frá 15. júní hefur Ísland boðið öllum ferðamönnum sem hingað koma að fara í skimun fyrir COVID-19 við landamærin sem valkost við 14 daga sóttkví. Fjöldi þeirra er tæplega 49.000. Á þessu tímabili hafa samtals 36.738 próf verið tekin. Af þeim hafa 83 sýni verið greinst jákvæð. Virk smit hafa verið 12 en rúmlega sextíu hafa greinst með gömul og óvirk smit.“

Miðað við fréttir frá nágrannalöndunum er þörf fyrir æ sterkari og markvissari rökum fyrir því að halda úti sýnatöku úr fólki við komu til landsins eða framfylgja kröfum um sóttkví

Vegna kraftsins sem beitt hefur verið til að hefta útbreiðslu COVID-19 við landamærin verður enn skýrara en ella hve lítil áhersla er lögð á að nota öflug greiningarkerfi til að fylgjast með þeim sem misnota frelsi til ferðalaga til að geta nýtt sér félagslegar fjárgreiðslur hér á landi.

Þegar kemur að greiningu vegna þessa vanda rísa þeir upp sem berjast undir merkjum no borders og stjórnvöld hrökkva undan vegna fjölmiðlaþrýstings í þágu þessara aðgerðarsinna. Þingmenn skirrast við að laga löggjöf að breyttum aðstæðum og taka þess í stað að hallmæla stjórnvöldum fyrir að framkvæma lög sem í gildi eru. Umræður komast í raun aldrei af tilfinningasviðinu og leitast er við að stjórnmálavæða lögmætar stjórnsýsluaðgerðir í þeim eina tilgangi að gera þær tortryggilegar.