30.8.2017 9:08

Lag fyrir Sjálfstæðismenn í borginni

Skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birt er í dag sýnir nú Sjálfstæðisflokkinn með mest fylgi í Reykjavík yrði gengið til kosninga til borgarstjórnar.

Skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birt er í dag sýnir nú Sjálfstæðisflokkinn með mest fylgi í Reykjavík yrði gengið til kosninga til borgarstjórnar.

Sjálfstæðislokkurinn fengi 34,2% atkvæða, VG 17,8%, Samfylkingin  13,7%, Píratar 12,4%. Flokkur fólksins 7%, Viðreisn 5,8%, Framsóknarflokkurinn 2,7% og Björt framtíð 2,7%.

Þessi könnun gefur vísbendingu um að fréttir undanfarna vikna um hörmulega stjórnarhætti í borginni undir forystu Dags B. Eggertsson borgarstjóra hafi opnað augu fleiri en áður fyrir nauðsyn þess að breyta um forystu í borginni. Betur má þó ef duga skal.

Furðulegt er hve mikils fylgis VG nýtur. Í borgarstjórn hefur flokkurinn verið taglhnýtingur þeirra Dags B. og S. Björns Blöndals, formanns borgarráðs, fulltrúa Bjartrar framtíðar. Þeir eru eins og á öðru tungli þegar hagsmunamál borgarbúa ber á góma.

Að 12,4% segist ætla að kjósa Pírata getur varla ráðist af því hvernig Halldór Auðar Svansson hefur haldið á málum. Til að fá hann að myndun meirihluta í borgarstjórn var stofnað sérstakt ráð undir formennsku hans sem átti að stuðla að bættum stjórnarháttum og auknu gegnsæi. Engin merki sjást um umbætur á þessu sviði.

Tveggja manna borgarstjórnarflokkur Framsóknarflokksins og flugvallarvina klofnaði á dögunum og er orðinn að engu meðal reykvískra kjósenda.

Flokkur fólksins er óþekkt stærð á þessu stigi og nýtur kannski þess vegna þessa fylgis. Ekki verður sagt um Viðreisn að hún sé óþekkt stærð þótt spurning sé hvaða erindi flokkur sem er með evruna á heilanum á í borgarstjórn Reykjavíkur.

Sjálfstæðismenn í borginni hafa kynnt aðferðina sem þeir ætla að beita við val á leiðtoga sínum og skipan framboðslista síns fyrir borgarstjórnarkosningarnar þótt þeir hafi síðan til málamiðla sett málið í nefnd! Þeir eiga að nota byrinn sem nú gefst til að kalla fram öfluga forystu fyrir flokkinn í Reykjavík og hefja sem fyrst markvissa miðlun upplýsinga til borgarbúa um ömurlega stjórnarhætti undir forystu Dags B. Eggertssonar.