16.6.2022 9:51

Lækjargata með nýjan svip

Frá mars 2019 hefur vestari akrein Lækjargötu í Reykjavík verið lokuð fyrir gangandi og akandi vegna framkvæmda. Það sér nú fyrir endann á því eins og myndir sýna.

Vestari akrein Lækjargötu í Reykjavík hefur verið lokuð frá mars 2019 vegna framkvæmda við húsin frá 10 til 12 þar sem Íslandahótel reisa Hótel Reykjavík Sögu. Það voru því tímamót í morgun, 16. júní, að sjá ekki aðeins nýja götumynd Lækjargötunnar heldur einnig Vonarstrætis frá Templarasundi að Lækjargötu.

Þessi langa lokun Lækjargötu sætti undrun margra og gagnrýni. Vigdís Hauksdóttir, þáv. borgarfullrúi Miðflokksins, bókaði til dæmis í borgarráði 7. apríl 2022:

„Lækjargötu hefur verið haldið lokaðri í tæp 3 ár og hafa verktakar einungis greitt 23.000 kr. á ári fyrir lokunina og öll bílastæðin sem þar eru. Í verklok sem áætluð eru í júní verður gatan opnuð á ný og verður þá einungis ein akgrein. Öll bílastæði hverfa. Það er forkastanlegt hvað borgarstjóri og meirihlutinn hefur þrengt að miðbænum sem felur í sér mikla mengun. Lækjargatan er Strætóleið og því má bóka að miklar tafir verða á svæðinu. Hér er enn einu sinni verið að fremja skemmdarverk á þessu svæði sem eru til þess fallin að enn frekari forðun Reykvíkinga og landsmanna allra að miðbænum.“

Hér eru birtar nokkrar myndir teknar við Lækjargötuna og í Vonarstræti að morgni fimmtudags 16. júní.

IMG_5149

Horft frá Tjörninni norður Lækjargötuna. Frá Skólabrú að Tjörninni verður aðeins ein akrein í suður.

IMG_5155

Lækjargatan í norður úr hornglugga Iðnaðarmannafélagshússins.

IMG_5151

Horft í vestur Vonarstræti að Tmeplarasundi. Lengst í vestri sést í nýbygginu alþingis á horni Tjarnargötu og Vonaestrætis.

IMG_5152

Horft í austur eftir Vonarstræti að horni Lækjargötu. Þarna var árum saman bílastæði við hlið bankahússins sem vék fyrir hótelinu.

1341558Myndin er frá framlvæmdatímanum  sem stóð frá mars 2019 þegar akreininni var lokað (mbl/sisi).