Kynngimögnuð Churchill-mynd
Undir lok myndarinnar segir Halifax þegar hann er spurður hvers vegna Churchill sigraði í átökunum innan flokksins og í þingsalnum: Hann virkjaði tungumálið og breytti því í vopn.
Óteljandi ævisögurnar hafa verið skrifaðar um Sir Winston Churchill eða einstaka atvik úr ævi hans. Ein þeirra eftir John Keegan, breskan blaðamann, mikilsvirtan styrjaldasagnfræðing, kom út 2002. Keegan fæddist 1934 (d. 2012) og var því aðeins sex ára þegar Churchill varð forsætisráðherra og leiddi Breta til sóknar gegn Hitler. Hann segist í bók sinni ekki hafa áttað sig á því fyrr en hann var 23 ára hvað gerði Churchill að stórmenni á styrjaldarárunum. Þá hlustaði Keegan á upptökur af ræðum Churchills og hreyfst af eldmóðnum og kraftinum eins og breska þjóðin gerði á árinu 1940.
Um þetta snýst einmitt kvikmyndin Darkest Hour – Dimmasta stundin – sem sýnd er í Sam-bíóunum þessa dagana. Þar segir frá því þegar Neville Chamberlain, forsætisráðherra Íhaldsmanna, hafði glatað trausti eftir samkomulag sitt við Hitler sem kennt er við München. Hefst myndin einmitt í sal neðri málstofu breska þingsins þegar Clement Attlee, leiðtogi Verkamannaflokksins, krefst afsagnar Chamberlains. Eftir hana leiðir Attlee flokk sinn í ríkisstjórn undir forsæti Churchills.
Myndin snýst þó ekki um samskipti Attlees og Churchills heldur átökin innan Íhaldsflokksins því að stuðningurinn við Churchill var síður en svo óskoraður þar auk þess sem hann varð að ávinna sér traust Georgs VI. Bretakonungs sem var einkavinur Íhaldsmannsins Halifax lávarðar, utanríkisráðherra Breta. Chamberlain vildi Halifax sem forsætisráðherra. Halifax talaði fyrir samningaleið við Hitler en Churchill boðaði að barist skyldi þar til yfir lyki.
Undir lok myndarinnar segir Halifax þegar hann er spurður hvers vegna Churchill sigraði í átökunum innan flokksins og í þingsalnum: Hann virkjaði tungumálið og breytti því í vopn.
Efnið í þessari mynd er náskylt því sem sagt er frá í kvikmyndinni The King‘s Speech frá 2010 um þjálfun George VI. í ræðumennsku svo að hann geti ávarpað þjóð sína árið 1939 þegar Bretar lýstu yfir stríði á hendur Þjóðverjum. Í báðum tilvikum er áherslan á að koma máli sínu á áhrifamikinn hátt frá sér.
Í Darkest Hour er brottflutningur breska herliðsins frá Dunkirk í Belgíu sýndur frá annarri hlið en í nýlegri kvikmynd, Dunkirk. Þessar tvær myndir eru keppinautar við veitingu Óskarsverðlaunanna í ár.
Churchill var meistari orðsins en flutningur hans var ekki síður áhrifamikill og í kvikmyndinni Darkest Hour tekst leikaranum Gary Oldman að glæða textann lífi á kynngimagnaðan hátt og sannfæra áhorfandann um hvers vegna Churchill hafði betur gagnvart keppinautum innan eigin flokks þótt hann boðaði ekki annað en blóð, svita og tár.
Leikstjórinn, Joe Wright, tekur sér eðlilega skáldaleyfi til að skerpa á áherslum eins og þegar hann lætur Churchill taka jarðlest frá einni stöð til annarrar og kynnast viðhorfi almennings. Þetta atriði fældi blaðamanninn og dálkahöfundinn Charles Moore frá að sjá myndina!
Churchill ferðaðist aldrei á þennan hátt. Þetta atriði í myndinni er hins vegar í ætt við þá aðferð sem forsætisráðherrar hafa notað hér: að ganga á milli Stjórnarráðshússins og Alþingishússins til skynja viðhorf almennings.
Ekki er ólíklegt að Gary Oldman fái Óskarsverðlaun fyrir leik sinn í Darkest Hour. Í Sam-bíóunum er önnur mynd sem kemur mjög til álita vegna Óskarsverðlaunanna, það er myndin The Post, sem segir frá birtingu á Pentagon-skjölunum fyrir um 45 árum.
Heiti myndarinnar vísar til The Washington Post og sýnir hvernig tekið var á málinu á ritstjórn blaðsins. Meryl Streep leikur Katherine Graham (1917-2001), eiganda blaðsins, á þann veg að hún er tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn. Sjálfsævisaga Katherine Graham kom út árið 1997, einstaklega góð bók.
Í The Post tekur leikstjórinn, Steven Spielberg, sér að sjálfsögðu skáldaleyfi. Vafalaust fælir það einhverja frá að sjá myndina eins og á sínum tíma þegar ýmsir aðdáendur Margaret Thatcher treystu sér ekki til að sjá Meryl Streep í hlutverki hennar af því að í sumum atriðum væri Thacher sýnd of hrum með elliglöp.