17.7.2021 10:03

Kynjastríð í Miðflokknum

Þorsteinn sætti sig ekki við þessa ákvörðun uppstillingarnefndarinnar og segir Fréttablaðið „að stuðningsmenn og fjölskylda Þorsteins hafi fjölmennt á félagsfundinn til að fella listann“.

Í Fréttablaðinu í dag (17. júlí) er frétt um framboðsmál Miðflokksins sem hefst á þessum orðum:

„Mikil ólga er nú innan Miðflokksins eftir að félagsfundur felldi tillögu uppstillingarnefndar um framboðslista í Reykjavíkurkjördæmi suður fyrir komandi alþingiskosningar.“

Fréttin er um að uppstillingarnefndin lagði til að Fjóla Hrund Björnsdóttir, framkvæmdastjóri þingflokks Miðflokksins, yrði í efsta sæti lista flokksins í kjördæminu. Nafn Þorsteins Sæmundssonar, núverandi þingmanns kjördæmisins fyrir flokkinn, var hins vegar ekki á lista uppstillingarnefndar.

Þorsteinn sætti sig ekki við þessa ákvörðun uppstillingarnefndarinnar og segir Fréttablaðið „að stuðningsmenn og fjölskylda Þorsteins hafi fjölmennt á félagsfundinn til að fella listann“. Höfðu vinir Þorsteins erindi sem erfiði, 14 vildu styðja staðfesta listann, 30 greiddu atkvæði gegn honum.

Í lögum Miðflokksins segir að kjördæmafélög flokksins beri fram lista flokksins í hverju kjördæmi. Innan félaganna er annaðhvort unnt að fela uppstillingarnefnd að gera tillögu um lista eða velja leið sem nefna mætti lokað, takmarkað prófkjör. Það er því á ábyrgð kjördæmafélagsins í Reykjavík suður að greiða úr þeim vanda sem Þorsteinn skapar með því að smala frændum og vinum á fund gegn uppstillingarnefndinni. Fyrsta spurningin hlýtur að sjálfsögðu að snúast um hvort þeir sem komu með Þorsteini á fundinn hafi verið löglegir félagsmenn í Miðflokknum en miðlæg félagaskrá á að liggja fyrir miðað við lög flokksins.

OiogthsFjóla Hrund stjórnaði með kettinum Golíat umræðum á vegum Miðflokksins. Þorsteinn Sæmundsson birtist eins og Golíat á fundi í Miðflokknum og felldi framboðslista með Fjólu Hrund í efsta sæti og heimtar sjálfur sætið.

Í Fréttablaðinu segir að formaður kjördæmafélags Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, viti ekki hvað gerist næst í framboðsmálum, hvort uppstillingarnefndin haldi áfram störfum og skili nýjum lista. „Það sem gerist núna er að stjórnin hittist og ræðir málið. Svo sendum við eitthvað frá okkur þegar við höfum tekið ákvörðun.“

Á vefsíðu Miðflokksins segir að Anna Björg Hjartardóttir sé formaður félags flokksins í Reykjavík suður. Af fimm manna stjórn eru fjórar konur og í kjörstjórn félagsins, en Guðlaugur Gylfi Sverrisson er sagður formaður hennar, eru konur einnig í meirihluta. Í Fréttablaðinu segir Þorsteinn Sæmundsson:

„Þetta mál beinist ekki gegn einum né neinum og allra síst Fjólu Hrund Björnsdóttur, sem er stórkostleg kona.“

Telur Þorsteinn greinilega að aldur sinn og reynsla vegi gegn sjónarmiðum um að efla verði hlut kvenna á framboðslistum Miðflokksins og segir:

„Landssamband eldri borgara hefur kallað eftir því að fólk á þeim aldri sé í áhrifastöðum í flokkunum, ég er 67 ára gamall og flokkurinn getur svarað þessu kalli.“

Allt er sagt leika „á reiðiskjálfi innan flokksins og flokksmenn séu ósáttir við framgöngu Þorsteins“. Fjóla sé hins vegar mjög vinsæl í flokknum og „talin einn allra öflugasti liðsmaður flokksins“.

Nú reynir á innviði Miðflokksins en þar stendur vilji margra til þess að konur verði í oddvitasætum á þremur listum af sex og verður þá einhver karlinn að víkja.