19.11.2019 15:22

Kveikur en ekki málalok

Að kalla sjónvarpsþátt Kveik segir að þar séu mál ekki leidd til lykta.

Að kalla sjónvarpsþátt Kveik segir að þar séu mál ekki leidd til lykta. Þegar kveikt hefur verið fjölmiðlabál eins og gert var þriðjudaginn 12. nóvember leitast þeir sem ráða yfir kveiknum við að halda lífi í því eins lengi og þeir geta. Samherjamálið svonefnda eða Namibíumálið verður ekki upplýst nema opinberir aðilar sem beita lögbundnum reglum við að upplýsa mál komi við sögu.

Th

Í Kastljósi fréttastofu ríkisútvarpsins að kvöldi mánudags 18. nóvember var rættr við forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur um málið. Hún svaraði öllum spurningum um efnisatriðin skilmerkilega.

Undir lok Kastljóssins sýndi fréttakonan hins vegar hve langt má teygja og toga umræðurnar þegar í ásökunartóni var spurt hvort eðlilegt hefði verið að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hringdi í fyrrverandi samstarfsmann hjá Samherja eftir að hörmungarnar hófust í kjölfar Kveiks. Símtalið snerist um líðan viðkomandi. Eða þegar borið var undir forsætisráðherra hvort henni þætti eðlilegt að það hefði ekki verið fyrr en á þriðja degi eftir Kveik sem Samtök atvinnulífsins sendu frá sér yfirlýsingu vegna hans.

Fréttastofunni er mikið í mun að sem mest sé gert úr málinu í fjölmiðlum og þess vegna kyndir hún stöðugt undir bálið frá Kveik. Þingmenn Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar ganga í lið með fréttastofunni. Haldi einhverjir að ríkisstjórnin eða einstakir ráðherrar geri einhvern tíma nóg til að slæva hneykslan fréttamannanna og stjórnarandstöðuflokkanna vaða þeir villu og reyk.

Þessa hlið hneykslismála af þessu tagi má ekki vanmeta. Á þennan hátt er unnt að setja þjóðlífsumræðurnar á annan endann í dálítinn tíma.

Í dag (19. nóvember) hefur ríksstjórnin svo gripið „til eftirfarandi aðgerða í því skyni að auka traust á íslensku atvinnulífi“:

1. Auka gagnsæi í rekstri stærri óskráðra fyrirtækja

2. Auka gagnsæi í rekstri stórra sjávarútvegsfyrirtækja

3. Stuðla að úttekt og úrbótum á fiskveiðum á alþjóðavettvangi

4. Ljúka endurskoðun á skilgreiningu á tengdum aðilum fyrir áramót, það er hvort yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeildum sé í samræmi við það hámark sem er skilgreint í lögum um stjórn fiskveiða.

5. Tryggja viðbótarfjárveitingar til skattrannsókna

6. Varnir gegn hagsmunaárekstrum og mútubrotum

7. Viðbrögð erlendis

Hvorki utanríkisráðuneytið, sendiskrifstofur né viðskiptafulltrúar ekki fengið teljandi fyrirspurnir eða athugasemdir frá stjórnvöldum annarra ríkja eða alþjóðlegum og svæðisbundnum samtökum. Utanríkisráðuneytið fylgist með umfjöllun erlendis og hefur undirbúið viðbrögð vegna hugsanlegs orðsporshnekkis.

Æstir stjórnarandstæðingar gera auðvitað ekkert með þetta. „Mér sýnist þetta vera hvorki fugl né fiskur,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, á visir.is um aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar vegna Samherjamálsins. Spurning hvort hún gaf sér tíma til að lesa tilkynninguna áður en við henni var brugðist. ´