21.2.2024 9:08

Kúvending frá niðurlægingu

Fulltrúar klofningsflokka eða lukkuriddarar rótlausra flokka breyta ekki útlendingalögunum til batnaðar. Til þess þarf ábyrgðarfullt átak.

Allir sem fylgjast með stjórnmálaumræðum hér á landi vita að umræður um útlendingamálin tóku nýja stefnu í janúar 2024 þegar Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi harðlega niðurlægingu Austurvallar í boði Samfylkingarinnar og annarra í meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur. Niðurlægingu sem átti rætur að rekja til stefnu Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata í útlendingamálum með framsóknarmenn í taumi.

Jónas Haraldsson lögfræðingur lýsti ástandinu á Austurvelli á þennan hátt í Morgunblaðinu þriðjudaginn 20. febrúar:

„Ég hef orðið var við það úti um allt, að þessi ósvífni og yfirgangur hefur valdið innfæddum Íslendingum mikilli reiði og um leið ýtt undir neikvæða afstöðu til Palestínu-Araba og trúbræðra þeirra. Sjálfum hefur mér sjaldan verið eins misboðið á ævinni, að sjá þennan ósóma á sjálfum Austurvelli, og þá ekki síður að búið væri að reisa stórt tjald með sófasettum og tilheyrandi drasli við og inni í því tjaldi. Þetta var gert með leyfi þeirra sem stjórna Reykjavíkurborg nú í dag illu heilli. Þessi tjaldborg stóð þarna í rúman mánuð og var um leið niðurlægjandi framkoma gagnvart Reykvíkingum og ekki síst virðingu Alþingis.“


Screenshot-2024-01-25-at-08.46.40

Þessi gagnrýni risti svo djúpt að formenn Viðreisnar og Samfylkingar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Kristrún Frostadóttir, fundu fyrir henni. Þær kusu þann kost að koma fram opinberlega og lýsa stefnubreytingu flokka sinna meðal annars með því að styðja hugmyndina um „lokað búsetuúrræði“ sem flokkar þeirra höfðu áður úthrópað.

Viðreisn er of lítill flokkur til að þar verði menn varir við skoðanaágreining. Í Samfylkingunni er hins vegar enn fólk sem telur sig hafa burði til að gagnrýna formanninn opinberlega þótt hann sé talinn snillingur í atkvæðaveiðum.

Það fór allt á annan endann innan Samfylkingarinnar vegna kúvendingar formannsins. Flokkslegar tilraunir til að breiða yfir ágreininginn teygðu sig alla leið í beina útsendingu sjónvarpsfrétta ríkisins 18. febrúar þegar Ólafur Þ. Harðarson, fyrrv. prófessor, birtist og boðaði að í Samfylkingunni ættu menn að anda með nefinu.

Á bitanum sitja tveir þingmenn Miðflokksins og þykjast aldeilis hafa náð vopnum sínum eins og birtist í yfirlætisfullri grein Bergþórs Ólasonar þingmanns í Morgunblaðinu í dag (21. febrúar) þegar hann segir að stóri skaðinn hafi gerst í tíð formanns síns, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, með þverpólitískri nefnd sem þá var skipuð af dómsmálaráðherra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Sigmundur Davíð hafi hins vegar verið á móti nefndinni og tillögum hennar!

Þetta minnir á afstöðu Sigmundar Davíðs í þriðja orkupakkamálinu sem hann sagði stórhættulegt vegna sæstrengs. Sem forsætisráðherra árið 2015 setti Sigmundur Davíð af stað samvinnu við Breta um sæstreng á sérstökum fundi með David Cameron, forsætisráðherra Breta, þegar hann sótti Ísland heim.

Fulltrúar klofningsflokka eða lukkuriddarar rótlausra flokka breyta ekki útlendingalögunum til batnaðar. Til þess þarf ábyrgðarfullt átak.