Krónunni líkt við kýli
Þorgerður Katrín talar fyrir sjónarmiði þeirra sem horfast ekki í augu við vanda líðandi stundar heldur kjósa að tala um allt annað.
Atvinnuleysi var 3,3% í ágúst sem er enn til marks um mikil umsvif í íslenska þjóðarbúinu, undirrót verðbólgunnar. Margvíslegar ráðstafanir eru gerðar til að hægja á hagvextinum og þar vega vaxtahækkanir seðlabankans þyngst. Talið er að nú megi sjá merki um að þær skili árangri. Jafnframt hlýtur styrkur krónunnar að lækka verð á innfluttum vörum.
Þetta eru raunveruleg viðfangsefni líðandi stundar við efnahagsstjórnina þótt ýmsir kjósi að tala um eitthvað allt annað.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, fagnaði því á alþingi þriðjudaginn 26. september að Vilhjálmur Birgisson, formaður starfsgreinasambandsins, sagðist á dögunum hafa fengið sig fullsaddan af krónunni vegna þess hve stýrivextir seðlabankans hækkuðu mikið. Taldi Þorgerður Katrín að með þessu hefði hann sett „málefni krónunnar á dagskrá“ enda væru „hagsmunir launþega og heimilanna undir“. Taldi hún að Vilhjálmur hefði með orðum sínum „stungið á ákveðnu kýli óréttlætis og ójafnréttis í íslensku samfélagi“.
Það er ekki beint aðlaðandi lýsing á íslensku krónunni að kenna hana við „kýli“. Við slíkan ófögnuð vilja menn losna tafarlaust. Í lok ræðu sinnar beindi Þorgerður Katrín þeirri spurningu til Lilju D. Alfreðsdóttur, viðskipta- og menningarráðherra, hvort hún væri „tilbúin að grípa þennan bolta sem Vilhjálmur Birgisson kastaði og til í þetta samtal, til í það að meta stöðuna, fyrir heimilin í landinu, fyrir okkar samfélag, hvaða valkostir eru í boði, aðrir en íslenska krónan“.
Í svari sínu minnti ráðherrann á „að Seðlabanki Íslands gerði á sínum tíma mjög góða úttekt á því hvað myndi henta Íslendingum best í gjaldmiðlamálum. Seðlabankinn var mjög afgerandi í þeirri niðurstöðu sinni að eins og staðan væri í dag hentaði sjálfstæð peningastefna okkur og hún hefði skilað okkur umfangsmiklum ávinningi“. Hagvöxtur hefði til að mynda verið mun meiri hér en í löndum Evrópusambandsins og þá hentaði sá gjaldmiðill, evran, alls ekki íslensku hagkerfi.
Þorgerður Katrín brást við svarinu með þessum spurningum: „Af hverju getum við ekki reynt að fara að tala um kjarna málsins? Af hverju erum við alltaf að tala um brunavarnir þegar eldurinn er fyrir löngu kviknaður? Af hverju getum við ekki byrjað á grunninum og eflt okkar brunavarnir, ekki bara til skemmri tíma heldur til lengri tíma?“
Ráðherrann viðurkenndi að vaxtakostnaður hér væri of mikill, hann væri þó „ekki herkostnaður vegna krónunnar“. Ástæðan væri mikill hagvöxtur. Það væri of mikil spenna á vinnumarkaðnum. Það breytti því hins vegar ekki að við yrðum að ná þessari verðbólgu niður og allir þyrftu að taka þátt í þeirri vegferð.
Þorgerður Katrín talar fyrir sjónarmiði þeirra sem horfast ekki í augu við vanda líðandi stundar heldur kjósa að tala um allt annað. Hún vill nota evruna sem beitu fyrir aðild að ESB og ræða eitthvað sem er ekki raunhæft á líðandi stundu eða í fyrirsjáanlegri framtíð. Að láta eins og slíkt tal eyði „kýlinu“ og lækni sjúklinginn ber ekki vott um vandaða sjúkdómsgreiningu.