5.10.2017 11:19

Krónan, misskipting og popúlistar

Viðreisn barðist ótrauð fyrir ESB/evru-stefnu sinni fyrir kosningar 2016. Hún gufaði upp í stjórnarmyndun í janúar 2017 og ekki er minnst á hana fyrir kosningar 2017.

Stefán E. Stefánsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, bendir á það í dag (5. október) að í aðdraganda kosninga heyrist popúlístar hamra á að bilið milli ríkra og fátækra sé að aukast hér á landi. Tölur Hagstofunnar varpi hins vegar ljósi á hve „víðáttuvitlaus slíkur málflutningur“ sé. Fljótt á litið kunni að stinga í augu að efsta tíund fjölskyldna í landinu (eins og Hagstofan skilgreinir það) eigi um 2.100 milljarða króna. Sé þetta skoðað nánar komi í ljós að meðaltalseign þessa „ofurríka“ fólks sé 100 milljónir króna. Það jafngildi verðmiðanum á þokkalegu einbýlishúsi í Reykjavík.

Þá segir Stefán E. Stefánsson:

„Stjórnmálamenn sem býsnast yfir misskiptingu ættu að hafa þetta í huga. Munurinn á ríkasta hópnum og þeim sem ekkert á hérlendis er eitt hús að meðaltali, ekki milljarðar, ekki hundruð milljóna. Sama fólk og býsnast yfir muninum blaðrar svo um mikilvægi þess að hverfa frá séreignarstefnu og byggja upp öflugan leigumarkað. Það sama fólk deilir ekki draumnum um eigið húsnæði fyrir alla – nema þá fyrir sjálft sig.“

Í Fréttablaðinu í dag birtist grein eftir Þórð Magnússon, stjórnarformann Eyris invest og forystumann stjórnmálaflokksins Viðreisnar. Grein hans ber fyrirsögnina: Er krónan þess virði? Svarið er neikvætt. Meginsjónarmið Þórðar birtist í lok greinar hans. Þar segir:

„Á Íslandi er tekjujöfnuður með því hæsta sem þekkist í heiminum. Eignadreifing er hins vegar mjög misjöfn. Ástæða þess er sú að með reglubundnu millibili verða kollsteypur í efnahagsmálum þar sem krónan fellur, skuldir heimila og fyrirtæja stórhækka og sparnaður og eignir heimila og fyrirtækja hverfur.“

Þórður telur krónuna ekki þess virði að halda í hana vegna þess að „eignadreifing“ hér sé „mjög misjöfn“. Þórður hefur greinilega ekki rýnt í tölur Hagstofunnar á sama hátt og Stefán E. Stefánsson. Þórður leiðir rök að því að krónan verði að hverfa til að jafna megi eignamuninn sem er eitt hús að meðaltali. Um 80 fm kjallaraíbúð í Reykjavík er nú auglýst á 42 milljónir króna.

Viðreisnarfólk gengur langt til að leita að rökum gegn krónunni. Fylgi flokksins mælist lítið en ráðherra hans Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segir í Morgunblaðinu í dag að hlutur Viðreisnar hljóti að batna. „Fyrst og síðast skiptir okkur í Viðreisn máli að tala fyrir okkar stefnu og vera samkvæm sjálfum okkur,“ sagði Þorgerður Katrín.

Viðreisn barðist ótrauð fyrir ESB/evru-stefnu sinni fyrir kosningar 2016. Hún gufaði upp í stjórnarmyndun í janúar 2017 og ekki er minnst á hana fyrir kosningar 2017. Þórður Magnússon nefnir ekki einu sinni evruna í grein sinni gegn krónunni.