4.4.2021 12:17

Kristur er upprisinn. Gleðilega páska!

Hvort atvikin voru nákvæmlega eins og lýst er í guðspjöllunum skiptir ekki höfuðmáli. Það er atburðurinn sjálfur sem ræður úrslitum, hann varð og breytti sögu heimsins.

Atburðir páskadagsins, gleðiboðskapur um upprisu Krists, hefur lifað með okkur kristnum mönnum í meira en tvær þúsaldir. Boðskapurinn er þungamiðja í trú okkar og ljós í heimi sem oft er dapur og drungalegur. Deilt er um sannleiksgildi frásagnarinnar sem þó er skráð og staðfest af vitnum. Hvort atvikin voru nákvæmlega eins og lýst er í guðspjöllunum skiptir ekki höfuðmáli. Það er atburðurinn sjálfur sem ræður úrslitum, hann varð og breytti sögu heimsins.

Undanfarna mánuði höfum við lifað heimssögulega á tíma faraldursins sem við vitum að er staðreynd þótt deilt sé um uppruna hans sem þó aðeins rúmlega árs gamall.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hét því að staðfesta uppruna kórónaveirunnar sem leiddi til COVID-19-faraldursins. Alþjóðlegur hópur óhlutdrægra vísindamanna var snemma árs 2021 sendur til Whuan í Kína og birti hann skýrslu 29. mars án þess að segja nokkuð nýtt eða skýra uppruna veirunnar á afdráttarlausan hátt. Fjórir kostir eru nefndir:

Í fyrsta lagi er talið líklegast að veiran hafi borist í menn frá leðurblökum með hýsil sem millilið. Næst líklegast er talið að leðurblökur hafi smitað menn milliliðalaust. Í þriðja lagi er talið „hugsanlegt“ en þarfnist nánari rannsóknar að veiran hafi borist til Kína með frystum matvælum. Kínverjar sem unnu með alþjóðahópnum héldu þessari kenningu að honum. Í fjórða lagi er sagt „ákaflega ólíklegt“ að veiran hafi lekið út af rannsóknastofu eins og Veirurannsóknarstofu Wuhan ( e. Wuhan Institute of Virology (WIV)).

Þarna er nefndir fjórir kostir og þeim gefin einkunn en enginn útilokaður og spurningunni í raun ekki svarað. Allri nútímatækni hefur þó verið beitt í leit að uppruna veirunnar en af skýrslu sérfræðinganefndar WHO verður ráðið að lyktir skýrslugerðarinnar mótist af hagsmunagæslu kínverskra yfirvalda sem vilja kasta sem flestum boltum á loft í von um að dreifa athygli frá eigin ábyrgð á að stöðva veiruna í fæðingu og miðla réttum upplýsingum til WHO og heimsbyggðarinnar almennt.

IMG_3221Hann var kaldur og blés að norðan að morgni páskadags 2021.

Þegar talað er um „fryst matvæli“ er athygli beint að þjóðum utan Kína sem flytja slík matvæli til landsins (Ísland?). Þetta er blekkingarbragð á borð við það sem nefnt var á fyrstu mánuðum veirunnar að bandarískir hermenn sem heimsóttu Wuhan hefðu borið mér sér veiruna.

Vissulega er mikilvægt að finna skýringu á því sem veldur jafnmiklu raski og COVID-19-faraldurinn hefur gert. Verður framhald á umræðum um uppruna hans. Við vitum hins vegar að faraldurinn setti allt á annan endann.

Við vitum einnig að Íslendingasögurnar voru skráðar og eru hluti sjálfsmyndar okkar sem þjóðar þótt við vitum ekki hver skráði sögurnar. Það er sígilt rannsóknar- og umræðuefni.

Við vitum að Kristur reis upp frá dauðum. Því fögnum við hvern dag og sérstaklega á páskum.

Gleðilega páska!