9.12.2017 7:53

Kristsmynd og metingur arabískra prinsa og fursta

Átökin við Persaflóa taka á sig ýmsar myndir. Hér birtist endursögn á frétt The Wall Street Journal um listaverkastríð prinsa og fursta í ríkjum múslima.

Átökin við Persaflóa taka á sig ýmsar myndir. Hér birtist endursögn á frétt The Wall Street Journal um listaverkastríð prinsa og fursta í ríkjum múslima vegna kaupa á dýrasta málverki mannkynssögunnar sem er af Jesú Kristi og eftir Leonardo da Vinci.

Mohammed bin Salman (32 ára), krónprins í Sádí-Arabíu, er að sögn bandarískra leyniþjónustumanna kaupandi að 500 ára gamla málverkinu af Jesú Kristi, Salvator Mundi, eftir Leonardo da Vinci sem selt var fyrir skömmu á uppboði hjá Christie’s í New York fyrir 450,3 milljónir dollara.

Prinsinn sem jafnan er kallaður MBS gerðist fyrir nokkru höfuðandstæðingur spillingar í heimalandi sínu og tók í raun öll völd í eigin hendur þegar hann setti andstæðinga sína í stofufangelsi í Ritz-glæsihótelinu í Riyadh, höfuðborg Sádí-Arabíu. Hann komst ekki til beinna áhrifa í landi sínu sem krónprins fyrr en í júní 2017.

Bader bin Abdullah bin Mohammed, prins, fjarskyldur MBS, var látinn kaupa verkið til að leyna raunverulegum kaupanda. Verðið var hærra en nokkru sinni áður hafði verið greitt fyrir eitt listaverk á uppboði og segir The Wall Street Journal að með þessari inngöngu inn á listaverkamarkaðinn hafi MBS strax á fyrsta degi skipað sér fremst í röð þess fámenna hóps manna sem lætur sig ekki muna um að greiða 100 milljónir dollara eða meira fyrir listaverk.

Kaupin endurspegla kapphlaup innan þessa hóps sem ræður miklu á alþjóðlegum listaverkamarkaði þar sem milljarðamæringar frá Kína, Mið-Austurlöndum og öðrum löndum sækjast eftir að eignast fáein meistaraverk sem rata á markað. Þá marka kaupin einnig nýja víglínu í orrustu konungsætta í Mið-Austurlöndum um að ná menningarlegum yfirburðum.

Katar hefur í meira en áratug notið óumdeildrar virðingar sem heimili lista við Persaflóa. Sheikh Hamad Bin Khalifa Al-Thani, fyrrv. emír, reisti í Doha árið 2008 300 milljón dollara safn fyrir íslamska list, teiknað af I.M. Pei. Vildi emírinn að það liti út eins og gosbrunnur sem hann sá í Kairó.

Þá segir sagan að Sotheby’s hafi boðið prinsunum í Katar mynd da Vincis fyrir 80 milljónir dollara fyrir sex árum en þeir ekki viljað hana. Hún hafi síðar verið seld Rússanum Dmitríj Rjibolovlev, milljarðamæringi í áburðarframleiðslu. Christie’s keypti málverkið af honum.

Salvator Mundi – frelsari heimsins – sýnir bláklæddan Krist í anda endurreisnartímans. Múslimar líta á Krist sem spámann en kennimenn þeirra og klerkar telja almennt til guðlasts að sýna spámenn í mannsmynd. Sumir telja myndina eftirgerð en National Gallery of Art í London og aðrir fræðingar hafa vottað að um frummynd sé að ræða en hún birtist við sölu á innbúi árið 2005 og hefur síðan verið gert við hana. Er hún eina verkið eftir Leonardo da Vinci sem var í einkaeign.

Í nóvember 2017 var Louvre Abu Dhabi-safnið opnað og á Twitter-síðu þess miðvikudaginn 6. desember birtist tilkynning um að Salvador Mundi yrði til sýnis þar. Kann málverkið að draga fjölda fólks að safninu en stjórnendur Louvre í París segja að 80% af 7,4 milljónum gesta sem heimsóttu Parísar-safnið árið 2016 hafi komið vegna áhuga á að sjá Monu Lisu eftir da Vinci.

Abu Dhabi er höfuðborg Sameinuðu arabísku furstadæmanna sem hafa styrkt samband sitt við Sáda eftir að MBS komst til meiri áhrifa. Furstadæmin hafa lengi beitt menningarvopninu í baráttu sinni við pólitíska andstæðinga sína í Katar. Sádar og furstarnir slitu stjórnmálasambandi við Katar í júní.

Mohammed Bin Zayed, stjórnandi Abu Dhabi, er fyrirmynd og kennari MBS sem vill laða hundruð milljarða dollara frá erlendum fjárfestum til lands síns, Sádí-Arabíu.