Kristrún vill að ESB greiði hátt verð fyrir Ísland
Á þjóðin að samþykkja verðmiðann sem ríkisstjórnin ætlar að setja á Ísland áður en gengið verður til ESB-aðildarviðræðna, verði þær samþykktar?
Í tilefni af þjóðhátíðardeginum ræddi Eggert Skúlason við Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra í þættinum Dagmálum sem sjá má á mbl.is en þar birtust einnig frásagnir af því sem bar hæst í samtali þeirra.
Eggert spurði forsætisráðherra um fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir árslok 2027 um aðildarviðræður við ESB. Forsætisráðherra svaraði:
„Við þurfum að fá bara já og nei við þessari spurningu fram. Síðan getum við tekið samtalið. Er þetta eitthvað sem við viljum sjá. Lítur samningurinn út eins og við getum sætt okkur við. Erum við í sterkri stöðu? Ég held að við eigum að fara inn í slíkar viðræður þegar við erum stór, sterk og getum staðið á okkar og erum ekki á hnjánum. Getum selt okkur dýrt. Getum varið hagsmuni Íslands. Getum gert okkur eitthvað sem Evrópusambandið vill.“
Þetta er meingallað svar. Það sýnir eins og svo margt annað á fyrstu mánuðum ríkisstjórnarinnar að draumurinn um að setjast í ríkisstjórn réð meiru um stjórnarmyndunina en ígrunduð stjórnarstefna.
Kristrún Frostadóttir í Dagmálum 17. júní 2025.
Hvaða spurningu á þjóðin að svara með já-i eða nei-i? Hvort það eigi að ræða áfram við ESB á grundvelli aðildarumsóknar frá árinu 2009? Umsóknar sem strandaði strax árið 2011 vegna ágreinings um sjávarútvegsmál. Um hvað á að „taka samtal“? Ætlar ríkisstjórnin að leggja fram tillögu að samningsumboði fyrir atkvæðagreiðsluna 2027? Ætlar hún að spyrja þjóðina um hvort hún styðji viðræður á grundvelli þess umboðs? Á umboðið að verða reist á því að við séum stór og sterk en ekki á hnjánum?
„Getum selt okkur dýrt. Getum varið hagsmuni Íslands. Getum gert okkur eitthvað sem Evrópusambandið vill,“ segir forsætisráðherrann. Er þetta kjarninn í stefnunni sem ríkisstjórnin ætlar að kynna fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 2027? Á þjóðin að samþykkja verðmiðann sem ríkisstjórnin ætlar að setja á Ísland áður en gengið verður til ESB-aðildarviðræðna, verði þær samþykktar?
Kristrún sagði að ekki yrði um það kosið 2027 hvort við vildum inn í ESB. Sú umræða yrði „tekin þegar við höfum umræðugrundvöll“.
Forsætisráðherra skilur eftir fjölmargar spurningar sem óhjákvæmilegt er að ræða og svara áður en spurningin árið 2027 verður kynnt. Það gengur engin þjóð til atkvæðagreiðslu nema hún viti nákvæmlega til hvers svar hennar leiðir. Hvaða aðferð ætlar ríkisstjórnin að hafa til að semja spurninguna og ná sátt um hana? Hvaða „umræðugrundvöllur“ verður kynntur fyrir atkvæðagreiðsluna 2027?
Í umræðum um annað baráttumál ríkisstjórnarinnar, auðlindaskattinn, skýrist betur, dag frá degi, að ráðherrar Viðreisnar gösltast áfram og reyna síðan að ljúga sig út úr vitleysunni eftir að staðreyndir mála eru kynntar. Enginn veit enn hvernig því máli lyktar.
Þjóðaratkvæðagreiðslan fyrir árslok 2027 er óskamál Viðreisnar. Þar hefur einnig verið vaðið áfram án þess að sjálfur forsætisráðherrann geti 17. júní 2025 sagt um hvað skuli kosið. Það er ekki traustvekjandi.