11.10.2025 10:31

Kristrún samdi illa af sér

Því miður skýrist æ betur þegar reynir á framkvæmd stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur að forsætisráðherra samdi af sér við gerð hans. 

Því miður skýrist æ betur þegar reynir á framkvæmd stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur að forsætisráðherra samdi af sér við gerð hans. Hana skorti pólitíska reynslu og þekkingu til að átta sig á því að ýmis ákvæði sáttmálans eru beinlínis andstæð hagsmunum þjóðarinnar.

Fyrir kosningar gekk Kristrún fram með hógværa miðvinstristefnu. Róttæknin fólst í viðurkenningu á nauðsyn þess að snúa við blaðinu í útlendingamálum, herða landamæraeftirlit og standa skipulega að brottvísun þeirra sem eiga ekki rétt til að dveljast í landinu. Sjálf sagðist hún svo vera með plan í efnahags- og atvinnumálum sem að vísu tæki átta, ef ekki tíu, ár að hrinda í framkvæmd.

Allur málflutningur hennar bar yfirbragð stöðugleika og framvindu í anda samráðs og samvinnu við þá sem nauðsynlegt er að líta til vilji stjórnmálamenn að hæfilegt jafnvægi ríki í samfélaginu. Samfylkingin naut ráðgjafar og stuðnings frá forystumönnum Alþýðusambands Íslands, forseti þess lýsti eindregnum stuðningi við Kristrúnu. Samfylkingin glansaði í kosningunum og þá tók að gæta áhrifa þeirra í flokknum, sem stjórnast af hatri í garð Sjálfstæðisflokksins og vilja afmá hann af pólitíska landakortinu.

1534267Kampakátar með stjórnarsáttmálann 20. desember 2024 (mynd: mbl/Eyþór).

Af því að VG hvarf af því korti ásamt Pírötum lenti Kristrún ekki í þeim vanda að þurfa að reyna stjórnarmyndun til vinstri. Hún hafði raunar slegið frá sér innan flokksins fyrir kosningar gegn þessum flokkum þegar hún sagði kjósendum sínum að strika Dag B. Eggertsson út af framboðslistanum. Hjá honum ræður takmarkalaus óvild í garð Sjálfstæðisflokksins eins og sannast hefur í meirihlutamyndunum hans í Reykjavík. Þar er litið til vinstri.

Kristrún átti eftir kosningarnar ekki annan kost en að reyna myndun stjórnar með Viðreisn og Flokki fólksins. Hún rökstuddi það með yfirlýsingum um að kjósendur hefðu viljað pólitísk þáttaskil. Í þeim fælist að hvorki Sjálfstæðisflokkur né Framsóknarflokkur kæmu til álita í stjórn. Kristrún lítur með skömm til Miðflokksins.

Flokksformennirnir Inga Sæland og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir leiða flokka sem þær líta á sem eign sína enda njóta þær hvor um sig 100% eða 98,8% stuðnings í formannskjöri innan þeirra. Þær hafa báðar mótað stefnu sem reist er á því að sumir hafi það of gott í samfélaginu og að beita eigi pólitísku valdi til að ná fjármunum af þessu fólki. Þetta er einnig grunnstef hjá Samfylkingunni. Kristrún hefur í því sambandi nefnt fjórar eða fimm fjölskyldur. Flokkarnir voru því samstiga í veiðigjaldsmálinu sem síðan dregur þann dilk á eftir sér að plan Kristrúnar í efnahags- og atvinnumálum er hrunið.

Aukinnar svartsýni gætir meðal forystumanna í atvinnulífinu. Forysta Alþýðusambands Íslands gagnrýnir vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. Um land allt finnst fólki vegið að grundvelli atvinnusköpunar og lífskjara.

Flokkur fólksins setti 48 strandveiðidaga sem skilyrði fyrir stjórnarsetu sinni fyrir utan að fjárhag flokksins yrði borgið. Viðreisn heimtaði þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB. Af reynsluleysi féllst Kristrún á hvoru tveggja og situr nú uppi með mál sem eru stjórn hennar lífshættuleg. Þau grafa einnig undan skynsamlegri nýtingu auðlinda sjávar og 200 mílna efnahagslögsögunni.