16.5.2023 10:40

Kristrún og rússneski sendiherrann

Kristrúnu Frostadóttur hentaði einmitt að koma úr fæðingarorlofi í þessari viku þegar ráðherrar voru með hugann við Evrópuráðsfundinn. 

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, kom til þingstarfa að nýju mánudaginn 15. maí að loknu fæðingarorlofi. Hún ávarpaði þingheim og spurði í upphafi máls síns:

„Virðulegi forseti, hvað er í gangi hjá hæstvirtri ríkisstjórn? Af hverju er enginn hérna að taka á þeim málum sem virkilega brenna á?

Eitt er að láta sig alþjóðamálin varða í vikunni — en hæstvirtir ráðherrar hljóta að átta sig á að slíkt kemur ekki í staðinn fyrir að sýna forystu hér heima í innanlandsmálum. Fólkið í landinu er að bíða eftir aðgerðum.“

Þetta var daginn áður en leiðtogafundur Evrópuráðsins hófst formlega í Reykjavík. Efnt var til margvíslegra funda í aðdraganda leiðtogafundarins meðal annars til að heiðra frú Vigdísi Finnbogadóttur. Evrópuráðið hefur stofnað til sérstakra Vigdísar­verðlauna fyrir valdeflingu kvenna. Verðlaunin verða veitt þeim sem þykja skara fram úr á sviði valdeflingar kvenna. Var hátíðleg athöfn af þessu tilefni með þátttöku Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Lækjargata að morgni þriðjudags 16. maí 2023, umferðarbann vegna leiðtogafundar.

Kristrúnu Frostadóttur hentaði einmitt að koma úr fæðingarorlofi í þessari viku þegar vitað var fyrir mörgum mánuðum að ráðherrar og þingmenn væru með hugann við Evrópuráðsfundinn fyrir utan uppstigningardag, lögskipaðan helgidag. Augljóst er af tímasetningu Kristrúnar að hún vildi fara af stað að nýju í rólegri þingviku. Hún kýs hins vegar að snúa málinu á þann veg sem lýsir sér í þessari setningu hennar:

„Nú er ég snúin aftur úr fæðingarorlofi og sé á dagskrá Alþingis að það er ekkert að gerast. Lítið á dagskrá, þingfundum er frestað. Og ég ætlaði að eiga hér orðastað við eitthvert af forystufólki ríkisstjórnarinnar — en ekkert þeirra ætlar einu sinni að láta sjá sig hér á Alþingi í vikunni og sitja undir svörum.“

Það er sagt að ekki sé til fyrirmyndar að sparka í liggjandi mann. Þetta orðtak er ekki nefnt hér vegna þess að líkja megi ríkisstjórninni við liggjandi mann, hún stendur vel fyrir sínu, heldur til að minna á hugarfar þess sem telur sér sæma að sparka við þessar aðstæður. Full rök eru fyrir því að þingstörf ráðist af skyldum ráðherra vegna alþjóðlegra skyldna þrjá daga í þessari viku. Orð flokksformannsins eru gagnrýni á að íslensk stjórnvöld efni til þessa leiðtogafundar hér.

Þegar þetta er skrifað kann alþingi að verða óstarfhæft í dag (16. maí) vegna árásar á netkerfi þess, stjórnarráðsins og dómstólasýslunnar. Er ekki að efa að þessi árás er liður í fjölþáttahernaði gegn Íslandi vegna þess að stjórnvöld ákváðu að bjóða til leiðtogafundarins hér.

Rússar stunda þennan hernað. Rússneski sendiherrann, sem notar málfrelsi hér og skjól frá íslenskum stjórnvöldum sem skirrast við að reka hann úr landi, hlýtur í senn að fagna því að flokksforingi stjórnarandstöðunnar gagnrýni ráðherra fyrir að standa að fundi Evrópuráðsins hér og að skemmdarverkamönnum GRU með bækistöð í sprengjuheldu skýli í bakgarði sendiráðsins takist að lama vefsíður íslenskra stjórnvalda.