Kristrún í fótsporum Steingríms J.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hefur tekið Steingrím J. sér til fyrirmyndar í málflutningi um ESB-málið.
Sjálfstæðisflokkurinn mótaði í mars 2009 stefnuna um tvær atkvæðagreiðslur vegna hugsanlegrar ESB-aðildar, þá fyrri til að tryggja þjóðarumboð fyrir umsókn og þá síðari um að stigið verði lokaskrefið inn í sambandið.
Þegar vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur baksaði við aðildarumsóknina sumarið 2009 lögðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins til að þjóðin yrði spurð. Þá hlógu ESB-sinnar yfirlætislega og sögðu að það væri aldrei gert, það dygði að þing og ríkisstjórn stæðu að ákvörðun um umsókn.
2009-umsókninni var í raun laumað bakadyramegin inn á þingið. Annar stjórnarflokkurinn, VG, gekk á bak orða sinna. Í sjónvarpssal daginn fyrir kjördag taldi formaður flokksins, Steingrímur J. Sigfússon, af og frá að hann myndi standa að aðild Íslands að ESB.
Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heilsar starfsbróður sinum hjá ESB, Dacian Ciolos, 25. janúar 2012 (mynd: utanríkisráðuneyrið).
Steingrímur J. sveik þetta hins vegar svo rækilega að hann rak flokksbróður sinn, Jón Bjarnason, úr stóli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í desember 2011 að kröfu Samfylkingarinnar. Jóhönnu þótti Jón þvælast of mikið fyrir í ESB-málinu. Steingrímur J. tók sjálfur við ráðherraembætti Jóns og fór til Brussel í janúar 2012 þar sem hann bugtaði sig og beygði fyrir ESB-fyrirmennum – allt án árangurs. ESB kaus starx í mars 2011 að sýna ekki á spil sín í sjávarútvegsmálum.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hefur tekið Steingrím J. sér til fyrirmyndar í málflutningi um ESB-málið. Fyrir kosningar sagðist hún alls ekki vera að blöffa þegar hún taldi óskynsamlegt að stefna í átök um ESB á því kjörtímabili sem nú er að líða.
Það tók Kristrúnu aðeins 20 daga eftir kosningar að skipta um skoðun. Hún tók að sér og fékk umboð meirihluta þingmanna til að leiða ríkisstjórn sem ætlar fyrir árslok 2027 að fá úr því skorið hvort taka eigi upp viðræðuþráðinn þar sem Steingrímur J. skildi við hann á árinu 2012.
Kristrún valdi sem sagt sömu bakdyr og Steingrímur J. gerði 2009. Þau gengu bæði á bak orða sinna, sögðu eitt fyrir kosningar og annað að þeim loknum.
Í báðum tilvikum hafa stuðningsmenn flokksleiðtoganna reynt að gera lítið úr kúvendingum þeirra. Við gerð stjórnarsáttmála verði að gera fleira en gott þykir. Um kosningasvik á þessum skala má segja að fyrr megi nú rota en dauðrota. Að ganga gegn eigin sjálfsvirðingu lofar aldrei góðu.
Upprifjun á þessu er ekki andstaða við þjóðaratkvæðagreiðslu eða frjálsa verslun. Stjórnmál snúast um þjóðarhagsmuni og heiðarleika við gæslu þeirra. Á næstu mánuðum kemur í ljós hvort ríkisstjórnin stenst þá prófraun.
Þjóðaratkvæðagreiðslan 2027 krefst þess að tillaga um hana sé lögð fyrir alþingi. Setja verður í lög ákvæði um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar, hvernig hún verði bindandi fyrir stjórnvöld. Sýna verður fram á með tillögu á alþingi og meðferð hennar að þingmeirihluti sé fyrir breytingu á stjórnarskránni svo að afsala megi fullveldi, samþykki þjóðin framgang aðildarumsóknarinnar til leiðtogaráðs ESB sem ákveður næstu skref.
Sé ekki tryggilega og löglega frá öllum þáttum gengið kann þjóðaratkvæðagreiðslan að verða dæmd ógild eins og kosningin til stjórnlagaþings árið 2010. Kannski ætlar Kristrún feta þar í fótspor Jóhönnu?