28.1.2025 10:18

Kristrún heima vegna Ingu

Gefnar hafa verið minnst þrjár opinberar skýringar á fjarveru Kristrúnar í Kaupmannahöfn og Auschwitz – allar eru þær ótrúverðugar.

Á ruv.is má lesa í dag (28. janúar) að Bergsteinn Sigurðsson, stjórnandi Silfurs ríkissjónvarpsins, hafi tekið upp varnir fyrir fjarveru Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra frá minningarathöfn í Auschwitz í Póllandi mánudaginn 27. janúar með þeim orðum að utanríkisráðherrar norrænu ríkjanna hefðu verið þar en ekki forsætisráðherrar og þess vegna hefði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sótt athöfnina fyrir Íslands hönd. [Uppfært: Eftir að þessi pistill birtist var fréttin á ruv.is leiðrétt: Bergsteinn nefndi aðeins utanríkisráðherra Íslands en ekki allra norrænu ríkjanna].

Nazistar myrtu um eina milljón gyðinga í Auschwitz og nú var þess minnst að 80 ár eru liðin frá því að sovéski herinn náði fangabúðunum á sitt vald og heimurinn kynntist hryllilegum óhugnaði búðanna og gasklefanna.

Auschwitz er nú friðhelgur minningarreitur og áminning um hvert það leiðir bregðist menn ekki við öfgaöflum sem spilla þjóðfélögum með lygi og hatri í þeim tilgangi að ná heljartökum á þeim.

BBC sýndi beint frá athöfninni í gær og þar mátti hlýða á magnaðar ræður fólks sem lifði af gyðingaofsóknir nasista. Í hópi áheyrenda voru konungar og drottningar, forsetar og forsætisráðherrar auk utanríkisráðherra Íslands.

1533494Kristrún Frostadóttir og Inga Sæland á meðan allt lék í lyndi (mynd: mbl.is).

Það er einfaldlega rangt hjá Bergsteini Sigurðssyni að forsætisráðherrar norrænna ríkja hafi ekki verið við þessa athöfn auk dönsku konungshjónanna, krónprinsessu Svíþjóðar, krónprins Noregs og Finnlandsforseta.

Frá Bessastöðum bárust þær fréttir að það hefði ekki fallið að dagskrá Höllu Tómasdóttur forseta Íslands að vera við minningarathöfnina en á vefsíðunni forseti.is er síðast getið viðburðar með forsetanum 16. janúar.

Á leið sinni til Auschwitz heimsóttu forsætisráðherrar Noregs og Svíþjóðar auk Finnlandsforseta Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur og þáðu sunnudaginn 26. janúar kvöldverð á heimili hennar. Birti hún mynd af þeim við matarborðið á Facebook.

Þessi Kaupmannahafnarheimsókn hefur vafalaust verið ákveðin á óformlegum símafundi sem norrænu forsætisráðherrarnir héldu (með þátttöku Kristrúnar Frostadóttur) í liðinni viku.

Það vakti undrun að Kristrún færi hvorki til fundarins í Kaupmannahöfn né til Auschwitz. Var sú skýring gefin að um verkaskiptingu milli hennar og Þorgerðar Katrínar væri að ræða og líklega hefur Bergsteinn Sigurðsson blekkst af þeirri skýringu þegar hann bar blak af Kristrúnu.

Gefnar hafa verið minnst þrjár opinberar skýringar á fjarveru Kristrúnar:

1. Verkaskipting innan ríkisstjórnarinnar. Sú skýring nær ekki til Kaupmannahafnarfundarins – hann var ekki fyrir utanríkisráðherra.

2. Fundarboð með of skömmum fyrirvara. Ótrúverðug skýring.

3. Annir forsætisráðherra við gerð þingmálaskrár vegna þingsetningar 4. febrúar. Þessi skýring er haldlaus. Það vita allir sem hafa komið að gerð slíkrar skrár.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknarflokksins á líklegustu skýringuna. Hún sagði í Silfrinu 27. janúar að vandræðin vegna opinbers fjárstuðnings við Flokk fólksins hefðu hindrað för forsætisráðherra. Ríkisstjórnarsamstarfið er með öðrum orðum í kreppu vegna málsins.