1.4.2025 10:39

Kristrún bendir á Ásthildi Lóu

Það er von að stuðningsmenn forsætisráðherra kvarti undan að þingmenn haldi lífi í umræðum um þetta mál með fyrirspurnum til ráðherrans. Í hverju samtali birtist nýr flötur. 

Í ljósi þess að Ásthildur Lóa Þórsdóttir sagði af sér embætti mennta- og barnamálaráðherra 20. mars eftir fund með formönnum stjórnarflokkanna þriggja, fund sem sagður er hafa staðið í fjórar klukkustundir, er ekki óeðlilegt að þingmenn vilji vita hvað gerðist í raun og leiddi til þessarar afsagnar.

Screenshot-2025-04-01-at-10.36.31Forystukonur ríkisstjórnarinnar sát fund með Ásthildi Lóu, að sögn í fjóra klukkutíma, áður en hún ákvað að hverfa úr ríkisstjórninni 20. mars (mynd: mbl.,is/Eyþór).

Á þingfundi mánudaginn 31. mars lagði Sigríður Á. Andersen, þingmaður Miðflokksins, þá spurningu fyrir Kristrúnu forsætisráðherra hvort hún teldi enn að Ásthildur Lóa hefði „brotið lög eða sýnt af sér svo ámælisverða hegðun“ að forsætisráðherrann gæti „ekki hugsað að starfa með henni áfram“. Hvað forsætisráðherra hefði gert á fjögurra tíma fundinum til að styðja Ásthildi Lóu vegna yfirvofandi umfjöllunar fjölmiðla sem hún óttaðist á þeim tíma.

Kristrún Frostadóttir sagði að Ásthildur Lóa hefði sjálf ákveðið að segja af sér. Hún taldi sér hins vegar „að meinalausu“ að endurtaka þá skoðun sína að ráðherrann þáverandi hefði sýnt „athugaverða“ hegðun með því að setja sig í samband við þann sem kvartaði til forsætisráðherra og vildi að ráðherrann yrði rekinn úr ríkisstjórninni. Það hefði „ekkert [verið] eðlilegt við viðbrögð þáverandi ráðherra á sínum tíma“ að snúa sér þannig beint til þess sem sendi forsætisráðherra erindi gegn ráðherranum.

Kristrún lét þess hins vegar ógetið að það var aðstoðarmaður hennar sjálfrar sem lét Ásthildi Lóu í té allar upplýsingar um þann sem sendi forsætisráðherra bréfið. Á hinn bóginn sagði Kristrún við Sigríði Á. að hún ætti frekar að spyrja Ásthildi Lóu en sig og bætti við „En það vill einfaldlega þannig til að umræddur ráðherra er ekki enn þá starfandi ráðherra í ríkisstjórn Íslands.“

Sigríður Á. var ekki ánægð með svarið, nú teldi forsætisráðherrann að samskipti Ásthildar Lóu við bréfritarann væru það undarlega í þessu máli en ekki fréttin um það. Forsætisráðherra bærist hótun í garð eins ráðherra utan úr bæ og eftir fjögurra tíma fund með leiðtogum ríkisstjórnarinnar segði viðkomandi ráðherra af sér. „Á þingið og þjóðin að sitja undir því að ríkisstjórnin láti undan hótunum utan úr bæ og fyrirskipunum um hverjir skipi ráðherraembætti?“ spurði Sigríður Á.

Kristrún svaraði: „Ég verð að viðurkenna að ég kann ekki alveg að meta þann tón sem er settur hérna fram. Það hafa hvergi komið fram merki um það að einhver hafi verið tilneyddur til að segja af sér.“

Það er von að stuðningsmenn forsætisráðherra kvarti undan að þingmenn haldi lífi í umræðum um þetta mál með fyrirspurnum til ráðherrans. Í hverju samtali birtist nýr flötur eins og verða vill sé málavöxtum ekki lýst eins og þeir eru. Forsætisráðherra kastaði nú boltanum fyrirvaralaust í fangið á Ásthildi Lóu. „Við skulum virða það og gefa henni það að hún las stöðuna með þeim hætti [að segja af sér], í staðinn fyrir að búa til einhvern annan málflutning í sambandi við þetta mál,“ sagði forsætisráðherra. Ætlar Ásthildur Lóa að segja frá fjögurra tíma fundinum fimmtudaginn 20. mars?