Kreppa jafnaðarmennskunnar
Hér á landi er óvild í garð Sjálfstæðisflokksins sameiningartákn þeirra sem berjast fyrir vinstrimennsku. Má segja að þetta hafi sterkan svip á íslensk stjórnmál í um 20 ár.
Í kosningunum í Bretlandi 12. desember 2019 hlaut Verkamannaflokkurinn verstu útreið sína í 80 ár. Þýski Jafnaðarmannaflokkurinn glímir við tilvistarvanda og þótt jafnaðarmenn leiði ríkisstjórnir Finnlands og Svíþjóðar endurspeglar það ekki styrk flokkanna heldur erfitt pólitískt ástand þar sem höfuðkapp er lagt á að halda þjóðernissinnuðum flokkum frá völdum.
Danskir jafnaðarmenn hafa mótað sér einarðari
stefnu í útlendingamálum en flokkssystkini þeirra annars staðar í Norður-Evrópu.
Úttekt á þingkosningum í Bretlandi árið 2017 sýndi að þá greiddu 48% almennra
launþega Íhaldsflokknum atkvæði sitt en aðeins 33% Verkamannaflokknum. Fylgi Verkamannaflokksins
var mest meðal háskólamanna og námsmanna.
Í þingkosningunum 12. desember 2019 tókst Íhaldsflokknum að brjótast í gegnum varnarvirki Verkamannaflokksins í Norður-Englandi. Íhaldsmenn sigruðu til dæmis í Grimsby í fyrsta sinn í 74 ár. Í Bretlandi segja menn að líta megi á stöðuna þannig að kjósendur skiptist á milli vel menntaðra stórborgarbúa og hinna sem búa utan mesta þéttbýlisins og þar sé Íhaldsflokkurinn sterkastur. Meirihluti manna hafi fengið nóg af menningarvitunum með frjálslyndu útlendingastefnuna sem telji sig sjálfskipaða til að hafa vit fyrir öðrum.
Fyrir þá sem vilja átta sig á pólitískri þróun hér á landi er forvitnilegt að rýna í umræðurnar á meðal norður-evrópskra jafnaðarmanna því að áratugum saman hafa jafnaðarmenn hér á landi sótt sér fyrirmyndir þar. Sumir frammámenn Samfylkingarinnar hafa hreykt sér af aðild að breska Verkamannaflokknum og núverandi þingmenn Samfylkingarinnar hallmæla stefnu danskra jafnaðarmanna í útlendingamálum.
Uppfært: Til marks um áhrif stefnu danskra jafnaðarmanna í útlendingamálum má benda á þessa frétt á vefsíðu Jyllands-Posten um hádegisbil mánudaginn 30. desember.Anthony Giddens var á sínum tíma einn af höfundum „þriðju leiðarinnar“ sem átti að leggja grunn að nýrri jafnaðarstefnu og setti svip sinn á breska Verkamannaflokkinn þegar Tony Blair leiddi hann. Nú er hann Sir Anthony (81 árs) í lávarðadeild breska þingsins og sagði við dönsku vefsíðuna altinget.dk á dögunum að gagnrýna mætti sig fyrir að leggja jafnmikla áherslu og hann gerði á að hver einstaklingur gæti staðið á eigin fótum, þetta hefði veikt tengsl samtaka launafólks, launþega og jafnaðarmannaflokka. Þetta hefði dregið úr stuðningi kjósenda við flesta jafnaðarmannaflokka hvarvetna í Evrópu. Þá hefði fjármálakreppan gert illt verra, launþegum hefði þótt jafnaðarmannaflokkarnir bregðast sér.
Hér á landi er óvild í garð Sjálfstæðisflokksins sameiningartákn þeirra sem berjast fyrir vinstrimennsku. Má segja að þetta hafi sett sterkan svip á íslensk stjórnmál í um 20 ár eða frá því að Samfylkingin var stofnuð árið 2000. Línur í þessu efni skýrðust fyrir þingkosningarnar 2003 þegar Samfylkingin skipaði sér með Baugsmönnum og Fréttablaðinu í von um að bola Sjálfstæðisflokknum úr ríkisstjórn. Að flokki sé haldið á floti með rógi og dylgjum um að andstæðingur hans eigi hlut að öllu sem miður fer eitrar pólitískt andrúmsloft og þjónar aðeins þeim tilgangi að beina athygli frá gjaldþroti eigin stefnu. Þetta er réttnefnd pólitísk spilling.