Kreddupólitík í umferðarmálum
Spyr Le Figaro hvort frelsið til að fara ferða sinna teljist ekki til grundvallarréttinda sem vinstrisinnuð borgarstýran verði að virða. Í stað þess gefi hún út alls kyns boð og bönn.
Hér er það yfirlýst markmið meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur að halda áfram hernaði gegn fjölskyldubílnum og herða á kröfunni um að innan borgarinnar fari menn ferða sinna fótgangandi, á reiðhjólum eða rafknúnum hlaupahjólum og í Strætó undir heitinu borgarlína. Séð verði til þess að þeir sem fara um akandi á eigin bifreiðum tefjist sem lengst í biðröum og verði mest neðanjarðar í göngum eða stokkum.
Þarna á að afmá fjölskyldubílinn með því að setja hann i stokk (mynd: mbl).
Þeir sem vilja fjölskyldubílinn feigan finna fyrirmynd í París þar sem sósíalistinn Anne Hidalgo er borgarstjóri í krafti 224.790 atlkvæða af 1.332.282 á kjörskrá. Hún bauð sig fram fyrir sósíalista í fyrri umferð frönsku forsetakosninganna og hlaut 22.901 atkvæði. Að sögn Le Figaro eru það færri atkvæði en fjöldi þeirra sem leigir sér hjól á góðviðrisdegi á Rivoli-götu og Sébastopol-breiðstræti í París.
Blaðið segir að nú hafi Anne Hidalgo ákveðið að allir Parísarbúar eigi annaðhvort að fara um borgina fótgangandi eða á hjóli. Þetta eigi við um alla hvort sem þeir vilji eða geti t.d. vegna elli eða fötlunar. Þá verði þeir sem stunda verslun einnig að una því að geta ekki notað bifreiðar í þágu daglegrar starfsemi sinnar. Þá segir að borgarstjóri Parísar standi í sérkennilegu stríði við vélknúna almenningsvagna, þeim séu einnig settar þröngar skorður. Veltir blaðið fyrir sér hvort markmið borgarstjórans sé ekki einfaldlega að hindra fólk í að komast úr einum stað í annan.
Spyr Le Figaro hvort frelsið til að fara ferða sinna teljist ekki til grundvallarréttinda sem vinstrisinnuð borgarstýran verði að virða. Í stað þess gefi hún út alls kyns boð og bönn til að ná markmiðum sínum. Í blaðinu eru birt mörg dæmi til marks um þessi ofur-afskipti af ferðafrelsinu og markvissri aðför að vélknúnum ökutækjum.
Kreddupólitík, ekki enn eins langt gengin hér og í París, setur svip sinn á kosningabaráttuna í Reykjavík fyrir kosningarnar 14. maí nk. Jónas Elíasson prófessor lýsir stefnu meirihlutans í Reykjavík með þessum orðum í Morgunblaðinu í dag (29. apríl):
„Hvatt var til hjólreiða og gönguferða, sem hefur borið þann árangur að fleiri hjóla og ganga sér til heilsubótar um helgar, en áhrifin á samgöngurnar eru nákvæmlega engin þótt Reykjavík sé að birta tölfræði sem á að benda til hins gagnstæða. Þá er ótalin skipulagsvillan að banna öll mislæg gatnamót en raða niður umferðarljósum í staðinn og halda þannig þjóðvegakerfi höfuðborgarsvæðisins í gíslingu á hálfum afköstum.“
Nýlega varð Strætó að draga saman seglin vegna þess hve fáir nýta sér þjónustu hans. Samt er yfirlýst markmið vinstrisinnanna sem nú veðja á stuðning meirihluta kjósenda að verja ótöldum milljörðum í Strætó – aö vísu undir nýju nafni. Vilja kjósendur skuldbinda sig til að nýta Strætó-þjónustuna með atkvæði sínu? Eða treystir meirihluti kjósenda því að meirihlutinn sem hann kýs standi ekki við loforð sín nú frekar en fyrri daginn?