9.2.2021 9:32

Krafist afsagnar Borrells

Josep Borrell tók til varnar eftir Moskvuförina og sagðist hafa orðið fórnarlamb á blaðamannafundi sem skipulagður hefði verið með árás á sig í huga.

Rússneski utanríkisráðherrann, Sergei Lavrov, niðurlægði Josep Borrell, utanríkismálastjóra ESB, í liðinni viku þegar Borrell fór til Moskvu að eigin sögn til að eiga „strategískar“ viðræður við Lavrov.

Á sama tíma og þeir Borrell og Lavrov tóku þátt í blaðamannafundi á vegum rússneska utanríkisráðuneytisins tilkynnti ráðuneytið að stjórnarerindrekum frá Póllandi, Svíþjóð og Þýskalandi væri vísað úr landi enda hefðu þeir tekið þátt í „ólögmætum mótmælum“ fyrir frelsun stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalníjs úr fangelsi. Mánudaginn 8. febrúar svöruðu ríkin þrjú í sömu mynt og vísuðu rússenskum sendiráðsmönnum úr landi.

C2adbea6350e9a55758ef7effbbe842e-800xÞað næðir um Josep Borrell í Moskvu og eftir heimkomu þaðan (mynd ESB).

Í leiðara Jyllands-Posten í dag (9. febrúar) segir að þess hefði mátt vænta að innan ESB myndaðist mikil samstaða um að standa við bakið á sínum manni, Josep Borrell. Sú væri þó alls ekki raunin því að hópur ESB-þingmanna frá austurhluta Evrópu hefði sent bréf til Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, með kröfu um að hún neyddi utanríkismálastjórann til afsagnar. Rökin fyrir kröfunni eru tvíþætt, annars vegar hefði Borrell borið lof á Sputnik V kórónubóluefni Rússa, þótt lyfjaeftirlit ESB hefði ekki viðurkennt það, og hins vegar hefði hann farið hörðum orðum um Bandaríkin vegna stefnu stjórnar þeirra gegn harðstjórn kommúnista á Kúbu.

Josep Borrell tók til varnar eftir Moskvuförina og sagðist hafa orðið fórnarlamb á blaðamannafundi sem skipulagður hefði verið með árás á sig í huga og sýndi að Rússar fjarlægðust markvisst Evrópu. Hann teldi þess vegna rétt að mæla með beinum refsiaðgerðum gegn lykilmönnum í stjórnkerfi Pútins. Jyllands-Posten segir að þessar tillögur breyti í raun engu fyrir Borrell, heimskupör hans séu þegar orðin of mörg til þess að honum sé viðbjargandi.

Blaðið segir að eftir nýgerðan viðskiptasamning við Kína sé gagnrýni ESB á Kínastjórn lítils virði. Sömu sögu sé að segja um sundurleitar refsiaðgerðir gegn Rússum í sömu andra og lögð sé lokahönd á nýja gasleiðslu, Nord Stream 2, frá Rússlandi til Þýskalands. Hún færi Kremlverjum stórfé og hluti þess verði notaður í leynilegu netstríði við Evrópu. „Pútin forseti skilur aðeins tungumál valdsins en það getur ESB ekki talað án aðstoðar túlks,“ segir Jyllands-Posten og bætir við í lok leiðarans:

„Vilji ESB verða tekið alvarlega af forræðis- og alræðisstjórnum heimsins verður að skapast allt annars konar einhugur innan þess og hugarfar kaupmangara verður að hverfa úr sameiginlegu utanríkisstefnunni. Sé meiri áhersla lögð á gróða en gildi er þetta varla í síðasta skipti sem hæðst er að ESB.“

Eftir að Rússar sýndu Borrell óvirðinguna og ráku sendiráðsmennina þrjá úr landi áréttuðu Angela Merkel Þýskalandskanslari og Emmanuel Macron Frakklandsforseti stuðning sinn við Nord Stream 2 og næsta dag, laugardaginn 6. febrúar, hóf rússneskt skip að leggja síðustu 120 km í danskri lögsögu. Þau hafa ekki aðeins sjónarmið margra ESB-ríkisstjórna að engu heldur einnig Bandaríkjastjórnar.