29.7.2019 9:17

Krafa um lokun ísskápa markaða

Þessi barátta gegn opnum ísskápum í verslunum siglir í kjölfar átaksins sem gert var til að útiloka notkun plastpoka í matvörumörkuðum.

Orkuframleiðsla og loftslagsmál falla æ meira í sama farveg. Leitað er leiða hvernig spara megi sem mest af orku og að orkugjafarnir séu umhverfisvænir og endurnýjanlegir. Í Bretlandi beinist athygli nú meðal annars að stórum, opnum kæliskápum eða frystikistum í stórum matvörumörkuðum (e. supermarket).

Í grein í The Daily Telegraph (DT) í dag (29. júlí) segir að þessi kælitæki noti allt að 1% af raforku í Bretlandi og orkueyðslan sé mun meiri en hún þurfi að vera vegna þess að kælingin eða frystingin sé ekki í lokuðum hillum eða kistum. Það kosti mun meira að kæla vöru á þann hátt en sé hillum eða kistum lokað. Verslunareigendur kjósi opnu leiðina af því að hún auðveldi viðskiptavinum að grípa vöruna.

HTB1caIrvb5YBuNjSspoq6zeNFXanÍ rannsókn sem breska umhverfis- og matvælaráðuneytið lét gera kom fram að „matvöruverslanir nota um 3% af heildarraforkunni“. Um 30 til 60% af þessari raforkunotkun megi rekja til kælikerfa. Þá er einnig fundið að því að í vetrarkuldum standi dyr stórverslana opnar og hitinn streymi út úr þeim.

Á næsta ári ætla Bretar að innleiða kerfi sem skyldar öll fyrirtæki af ákveðinni stærð að skila skýrslu um kolefnisspor sitt.

Vitnað er í upplýsingafulltrúa samtakanna Vinir jarðar (e. Friends of the Earth) sem sagði:

„Í heimi þar sem neyðarástand ríkir í loftslagsmálum ættu stjórnendur verslana okkar að setja orkusparnað efst á forgangslistann samhliða því að minnka útblásturinn sem er að steikja jarðarkringluna.

Matvörumarkaðir verða að tryggja að ísskápar þeirra og tæki nýti orku eins og best verður á kosið – geri þeir það ekki ættu stjórnvöld að neyða þá til þess.“

Nú þegar hafa tæplega 25.000 manns skrifað undir bænarskrá til breska þingsins þar sem þingmenn eru hvattir til að neyða stjórnendur matvörumarkaða til að loka ísskápum.

Þessi barátta gegn opnum ísskápum í verslunum siglir í kjölfar átaksins sem gert var til að útiloka notkun plastpoka í matvörumörkuðum. Áhrif þess sjást hvarvetna og hér á landi er nú nauðsynlegt að muna eftir eigin poka við matarkaup. Samhliða má fagna að ekki er nauðsynlegt að hafa með sér plastkort fyrir posann heldur nægir að beina farsímanum að honum.

Nú verður gengið um verslanirnar með augun hjá sér til að meta orkunýtingu kælitækjanna. Hvað með kæliklefana í Bónus-verslununum ­– hvernig skyldu þeir falla innan þessa nýja ramma?