12.4.2022 10:31

Kræklingatínsla fyrir Pútin

Nú efndu Samtök hernaðarandstæðinga til kræklingatínslu í Hvalfirði til að auglýsa sig í tengslum við heræfinguna Norður-víking.

Á aðalfundi Eflingar að kvöldi föstudags 8. apríl var kjöri nýrrar stjórnar lýst og Sólveig Anna Jónsdóttir tók að nýju við formennsku í félaginu. Eftir fundinn kvartaði Sólveig Anna yfir því á FB-síðu sinni að sér hefði hvorki verið afhentur blómvöndur né óskað til hamingju af fráfarandi formanni.

Á fundinum gerði Sólveig Anna og hennar fólk tilraun til að breyta lögum Eflingar á þann veg að hvorki starfaði ritari né gjaldkeri í stjórn félagsins. Fór svo eftir umræður að Sólveig Anna dró tillögur sína til baka. Markmið hennar með þessu skrefi var að geta hagað meðferð fundargerða stjórnar og fjármálum félagsins að eigin höfði.

Stjórnarfundur undir formennsku Sólveigar Önnu var haldinn að kvöldi mánudags 11. apríl og þar samþykkti átta manna hópur liðsmanna hennar að reka allt starfsfólkið á skrifstofu Eflingar. Deilur Sólveigar Önnu við það urðu til þess haustið 2021 að hún hrökklaðist úr stjórn félagsins. Nú lætur hún hins vegar kné fylgja kviði og rekur alla af skrifstofunni.

Sólveig Annan er í forystuhópi Sósíalistaflokks Íslanda og stjórnar í anda ný-stalínisma eins og Pútin sem átti sér einnig þann draum að verða fagnað með blómum þegar hann rauf friðinn og réðst inn í Úkraínu.

1335623Bryndreki kemur í land í Hvalfirði 11. apríl 2022 (mynd: mbl/Árni Sæberg).

II.

Heræfingin Norður-víkingur hefur verið hér á landi eða við landið reglulega síðan 1982. Hún er ekki næstum eins viðamikil og NATO-æfingin Trident Juncture haustið 2018.

Þá var meðal annars efnt til heræfingar landhermanna í Þjórsárdal laugardaginn 20. október. Fréttastofa ríkisútvarpsins var með tökulið á staðnum sem fylgdist með félögum úr Samtökum hernaðarandstæðingar og var rætt við Þorvald Örn Árnason, líffræðing og kennara, sem taldi „rosalegt hneyksli“ að hermenn æfðu á svæði með eins til fimm ára birkiplöntum án þess að vita af því. Allt tal um þetta tjón á gróðri vegna æfingarinnar var orðum aukið og fréttirnar af því í raun „rosalegt hneyksli“.

Nú efndu Samtök hernaðarandstæðinga til kræklingatínslu í Hvalfirði til að auglýsa sig í tengslum við heræfinguna. Var það jafnvel enn misheppnaðri og andkannalegri aðgerð en ferðin í Þjórsárdal um árið.

III.

Hafi einhverjir lesendur áhuga á að kynnast aðferðum Rússa við að koma boðskap sínum á framfæri er þeim bent á grein í Morgunblaðinu í dag (12. apríl) undir nafni Ingibjargar Gísladóttur sem „starfar við umönnun aldraðra“ og les meðal annars fjölmiðlana The New York Times, The Guardian, The Huffington Post og The Ottawa Citizen við gagnaöflun sína.

Ingibjörg afsakar meðal annars fjöldamorð og stríðsglæpi Rússa í Mariupol og snýr öllu varðandi innrás og ódæðisverk Pútins á hvolf. Þetta er dæmi um nytsaman sakleysingja sem tekur að sér að dreifa lygum Rússa og efla andúð í garð lýðræðisríkja og NATO. Greinin fellur því að kræklingatínslu Samtaka hernaðarandstæðinga. Hafa þeir látið eitthvað í sér heyra vegna stríðsins í Úkraínu?