6.10.2017 11:42

Kosningabomba Stundarinnar

Nú er spurning hvort kosningabomban hafi verið sprengd á réttum tíma eða ekki. Höfundar hennar höfðu það í hendi sér að ákveða tímasetninguna því að hér er um endurunnið efni að ræða sem margsinnis hefur verið til umræðu áður.

Stundin sprengdi kosningabombu sína í dag í samvinnu við The Guardian og fyrirtækið Reykavík Media. Eins og vænta mátti þegar þessir aðilar taka höndum saman undir forystu Inga Freys Vilhjálmssonar snýst málið um Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, og fjölskyldu hans.

Í The Guardian sjá menn sóma sinn í því að taka fram að ekki hafi verið um lögbrot að ræða. Þar vita menn sem er að ekki er saknæmt fyrir stjórnmálamenn frekar en aðra að ráðstafa eigum sínum á lögmætan hátt.

Nú er spurning hvort kosningabomban hafi verið sprengd á réttum tíma eða ekki. Höfundar hennar höfðu það í hendi sér að ákveða tímasetninguna því að hér er um endurunnið efni að ræða sem margsinnis hefur verið til umræðu áður. Ekki eru sagðar neinar nýjar fréttir heldur það áréttað sem Ingi Freyr hefur skrifað um árum saman.

Vitað er að tímasetning frétta, jafnvel í endurvinnslu, skiptir máli. Að setja þessar gamalkunnu upplýsingar í þann búning sem nú er gert sýnir þann ásetning að hafa áhrif á kosningabaráttuna.

Bomb_3

Um heim allan eru stjórnmálamenn á varðbergi vegna ótta við slíkar starfsaðferðir. Erfitt getur reynst að upplýsa allt sem tíðkast í tengslum við þær. Allur heimurinn hefur fylgst með því hvaða dilk það hefur dregið á eftir sér í Bandaríkjunum að grunsemdir eru um afskipti Rússa af kosningabaráttunni þar á árinu 2016.

Bjarni Benediktsson birtir yfirlýsingu af þessu tilefni á Facebook-siðu sinni. Þar segir meðal annars:

„Í fimmta lagi liggur fyrir að Rannsóknarnefnd Alþingis (RNA) fékk víðtækustu rannsóknarheimildir sem mögulegt var. Öllum steinum var velt við. Sérstaklega var hugað að öllu því sem gerðist í aðdraganda hrunsins. Um þetta allt er fjallað í skýrslu RNA.

Þá tók slitastjórn bankans öll viðskipti í aðdraganda hrunsins til skoðunar. Allt sem gerðist í aðdraganda falls bankanna hefur því í tvígang verið rannsakað. Engar athugasemdir hafa nokkru sinni verið gerðar við viðskipti mín. Ég hef aldrei verið sakaður, af öðrum en ákveðnum blaðamönnum og einstaka pólitískum andstæðingi, um að hafa gert eitthvað misjafnt.“

Það er dæmigert fyrir pólitískt eðli þessara „uppljóstrana“ að Helga Vala Helgadóttir, lögmaður og væntanlegur dómsmálaráðherra Samfylkingarinnar í vinstri stjórn að loknum kosningum, krefst nú nýrrar rannsóknar vegna þess sem segir í Stundinni. Treystir hún ekki þeim sem hafa rannasakað þessi mál? Vissulega varð hér hrun en það varð fyrir níu árum. Á að heyja enn eina kosningabaráttuna um það sem þá gerðist?

Nú er spurning hvort tímasetning kosningabombunnar var rétt eða hvort endurvinnslan misheppnaðist og sprengjan hafi sprungið í andlitið á höfundunum.